Félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að Tryggingastofnun gengi betur að endurgreiða fólki skerðingar á greiðslu á sérstakri framfærslu uppbót vegna búsetu erlendis en búist var við.
Hæstiréttur felldi dóm þann 6. apríl síðastliðinn þess efnis að Tryggingastofnun hefði verið óheimilt að skerða greiðslurnar. Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins spurði ráðherrann af hverju ekki væri greitt 13 ár aftur í tímann.
Þingmaðurinn rifjaði upp orð ráðherrans þegar hann spurði hann út í málið eftir að dómur féll þar sem hann sagði að ríkisstjórnin ætlaði að greiða bætur fjögur ár aftur í tímann.
Er einhver hissa að kvíði, þunglyndi, streita, svefnleysi sé að hrjá þennan hóp?
„Ríkið hefur með lögbrotum rænt sérstöku uppbótinni af þessum hóp í 13 ár,“ sagði þingmaðurinn og spurði í framhaldinu: „Á ekki að skila þessum ólöglega ránsfeng? Hefur ríkisstjórnin ekki breytt um skoðun og ákveðið að fara að lögum og borga að fullu þetta ólöglega fjárhagslega ofbeldi gagnvart verst setta fólkinu?“
„Þá hafa þeir lífeyrisþegar sem hafa tekið út séreignarsparnaðinn sinn lent í skerðingum, keðjuverkandi skerðingum, þannig að viðkomandi hafa lent í mínus. Hugsa sér að lofa einhverjum að hann geti tekið út séreignarsparnað sinn án skerðingar en gera það svo flókið að stór hópur lendir í skerðingum, það miklum skerðingum að allt er tekið af þeim. Veikt fólk lendir í því að skrá vitlaust hjá skattinum og því reiknast þeim tekjur og allt er skert að fullu.
Það hefur einnig keðjuverkandi áhrif á margar stofnanir og þau fá ekkert leiðrétt eða borgað til baka. Er einhver hissa að kvíði, þunglyndi, streita, svefnleysi sé að hrjá þennan hóp í boði ríkisstjórnarinnar? Álagið gengur nærri heilsu þessa fólks,“ sagði Guðmundur Ingi þingmaður.
Hann spurði ráðherrann jafnframt hvort þessir einstaklingar væru óvinir þessarar ríkisstjórnar. „Eru þetta breiðu bökin, verst setta fólkið á Íslandi? Ætlið þið virkilega að halda áfram að koma svona fram við þetta fólk?“
Lögin í landinu segja fjögur ár
Ráðherrann benti á í svari sínu að hann hefði brugðist við dómnum með reglugerðarbreytingu eftir að hann féll til þess að til leiðréttingar kæmi í framhaldinu. „Ég fékk þær fréttir frá Tryggingastofnun í morgun að þeim sé að takast að gera leiðréttinguna fyrr en þau áttu von á, sem er mjög gott. Ég hef líka sagt það í þessum ræðustól við fyrirspurn háttvirts þingmanns Guðmundar Inga Kristinssonar að ég er ánægður með þessa niðurstöðu Hæstaréttar. Hún er skref í réttlætisátt fyrir þau sem minnst hafa á milli handanna í íslensku samfélagi og ég stend við þá yfirlýsingu mína.
Varðandi greiðslur aftur í tímann þá erum við einfaldlega með þau lög í landinu að það er miðað við fjögur ár, það er fjögurra ára fyrningarfrestur og við munum vinna eins hratt og við getum til að koma greiðslum til þess fólks núna í framhaldinu,“ sagði hann.
Ráðherrann sagði að fyrirspurn til skriflegs svars væri í vinnslu í ráðuneyti hans sem fjallaði um séreignarsparnað og úttöku á honum en heimild þess efnis hefði verið gerð sem eitt af COVID-úrræðunum – og hefði ekki átt og ætti ekki að hafa áhrif á bætur.
„Það hefur ekki tekist sem skyldi vegna þess að það var ekki skráð rétt á skattframtal hjá öllum fyrir fram frá Skattinum, byggt á upplýsingum frá lífeyrissjóðum og vörsluaðilum og er það mjög miður. En Tryggingastofnun er búin að gera það sem í hennar valdi stendur og mun halda áfram að ýta á að þetta verði leiðrétt. En Skatturinn þarf ekki síður að skoða þessi mál,“ sagði ráðherrann.
Ætlar ráðherrann að berjast fyrir þetta fólk?
Guðmundur Ingi þakkaði ráðherra fyrir svörin. „Ég er ekki löglærður maður en hann sagði: „Með lögum er bara hægt að borga fjögur ár aftur í tímann.“ Með lögum. En lög voru brotin. Lög voru brotin 13 ár aftur í tímann. Má það? Ég bara spyr. Ef einhver úti í bæ brýtur af sér og hann segir: „Það eru bara fjögur ár sem má taka, skattpeningar eða eitthvað, fjögur ár aftur í tímann.“ Haldið þið að hann komist upp með það? Hann verður að skila öllum ránsfengnum. Ríkissjóður á að skila öllum ránsfengnum,“ sagði þingmaðurinn.
Hann benti enn fremur að þetta væri verst setta fólkið á landinu sem ætti varla fyrir mat, með langlægstu tekjur sem hægt væri að hugsa sér. „Það er tekið af því í 13 ár. Ég get ekki séð að ríkisstjórnin geti varið sig á fjögurra ára reglu vegna þess að ef brotið er í 13 ár þá á að borga 13 ár. Annað getur ekki staðist.“
Spurði hann því hvort ráðherrann ætlaði að sjá til þess og berjast fyrir því að þetta fólk fengi rétt sinn.
Ætlar að kanna málið
Ráðherrann svaraði í annað sinn og sagði að hann hefði ekki þær upplýsingar sem þingmaður spurði hann um á takteinum og vissi ekki hvort þær hefðu verið teknar saman.
„En ég skal kanna þetta mál og þetta gæti kannski líka verið ágætisefni í fyrirspurn til skriflegs svars. En ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta skref hafi verið tekið, þó svo að það sé bara eitt af mörgum sem við þurfum að horfa til í málefnum eldra fólks, og vonandi skilar það aukinni atvinnuþátttöku eldra fólks, sem ég tel að skipti máli.“