Ásgeir Brynjar Torfason doktor í fjármálum telur að þvingunaraðgerðir í efnahagsmálum bíti Rússa lítið vegna þeirra greiðslna sem þeir fá fyrir gas og olíu – en verðið á þessum vöru hækkar með hverjum deginum sem líður.
Þetta kom fram í máli hans í Silfrinu á RÚV um helgina.
Egill Helgason spurði Ásgeir Brynjar í framhaldinu hvort Evrópuþjóðir myndi vilja hætta að kaupa olíu og gas af Rússum í ljósi aðstæðna.
Ásgeir Brynjar telur að svo sé. „Jú, en það tekur tíma. Þeir eru búnir að segjast ætla að draga úr því um 60 til 80 prósent fram til ársloka. Það er verið á fullu að koma upp öðrum leiðum og þetta hraðar náttúrulega umbreytingu á orkukerfum í Evrópu en þetta tekur allt tíma. Á meðan fyllast öll koffort í Moskvu af peningum fyrir gasið sem er orðið dýrara og olíuna.“
Búið að færa rússneskt efnahagslíf aftur um 20 til 30 ár
Egill spurði jafnframt hvort þvingunaraðgerðir gegn Rússum út af stríðinu hefðu virkað og hvort þær væru nægilega víðfeðmar.
„Ja, það sem kom á óvart frá því fyrstu helgina eftir stríð, frá því ég var hérna síðast, var að viðskiptalífið tók sig eiginlega til og bætti fullt við í að herja á Rússland með því að draga viðskipti sína þaðan burtu – miklu meira en hinar opinberu aðgerðir voru raun og veru að krefjast eða fara fram á. Þannig að það er búið að færa rússneskt efnahagslíf aftur um 20 til 30 ár á tveimur þremur viku.“
Fólk mun svelta
Ásgeir Brynjar sagði að þrátt fyrir efnahagsþvinganir væri nægt flæði af peningum inn í landið en þó væru öll vestræn fyrirtæki að draga sig þaðan burtu.
„Þær mögulega verða þá þjóðvæddar verksmiðjurnar þeirra sem standa þarna eftir og það er óvíst hvernig tekst að koma þeim í gang aftur. Það er auðvelt með McDonalds-hamborgarastaðina en kannski flóknara með BMW-bílaverksmiðjur. Og þetta er í raun og veru óvíst ennþá vegna þess að stríðið er í fullum gangi.“
Hann sagði að stóra spurningin væri hversu lengi stríðið myndi vara. Hann sagði að stríðið hefði jafnframt slæm áhrif á efnahagskerfi heimsins. „Það tapa allir á stríðinu en það fara alls konar umbreytingarferlar í gang; það að olíuverðið fari upp, að hrávöruverðið fari upp og að þetta verður hökt eins og þegar COVID kom í alls konar keðjur hvort sem er af orku eða málmum eða hrávörum. Við sjáum hveitið núna, sem er ekki bara orðið dýrara, að það er líka ekki verið að planta fyrir næstu uppskeru. Þannig að verðið verður á næsta ári líka hátt og hjálparstofnanir í suðurhluta heimsins eru bara með ákveðið magn af peningum til að kaupa korn – þannig að fólk er að fara að svelta.“