Yfir tuttugu COVID-19 smit greindust innanlands í gær. Þetta kom fram í máli Runólfs Pálssonar, yfirmanns á COVID göngudeild Landsspítalans, þar sem hann var til viðtals í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Runólfur lagði áherslu á að tölurnar væru ekki staðfestar og að vonir stæðu til þess að flestir þeirra sem greindust hefðu verið í sóttkví.
Það hafa ekki greinst yfir 20 smit hérlendis frá því í nóvember í fyrra.
Um er að ræða hópsmit sem á rætur að rækja til þess að einstaklingur sem kom til landsins braut reglur um sóttkví. Þaðan barst veiran inn í leikskóla í Reykjavík. Alls hafa 22 starfsmenn og börn á umræddum leikskóla, Jörfa í Hæðargerði, greinst með COVID-19 síðustu tvo daga en þrettán manns greindust með veiruna í fyrradag.
Í tilkynningu sem Almannavarnir sendu frá sér í gær voru allir sem höfðu umgengist starfsmenn eða börn á leikskólanum Jörfa síðustu vikuna hvattir til þess að fara í skimun og á það við um börn jafnt sem fullorðna. Einnig voru íbúar sem búa í næsta nágrenni leikskólans hvattir til að fara í skimun – ástæðan er sögð mikil samskipti á milli fólks og krakkarnir eðlilega mikið á ferðinni.