Friður á vinnumarkaði felur ekki einungis í sér að launafólk gæti hófs í launakröfum heldur einnig að vinnuveitendur gæti hófs í kröfum um hagnað og arðsemi fjármagns. Þetta segir Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Gylfi segir að útlit sé fyrir að mikil óvissa verði um efnahagsmál innan lands sem utan á þessu ári. Hér á landi er óvissan mikil um gengi krónunnar, einkum vegna þess að áhrif farsóttarinnar og stríðsins í Úkraínu á ferðaþjónustuna eru óljós. Einnig er óvissa um verð á olíu og annarri hrávöru vegna stríðsins, auk þess sem ekki er vitað hvernig verðlag á innfluttum vörum verður vegna verðbólgu í nágrannalöndum.
Í slíkum aðstæðum gæti reynst erfitt að ljúka kjarasamningum í haust, en þótt ekki hafi enn heyrst mikill sáttatónn frá aðilum vinnumarkaðar þá sé brýn ástæða til þess að bæði launþegar og vinnuveitendur séyni varfærni í kröfugerð og komist að samkomulagi án þess að til mikilla átaka komi.
Launþegar stilli launakröfum í hóf
Samkvæmt Gylfa ættu launþegar að taka tillit til þess að mismikið svigrúm sé fyrir launahækkanir á milli atvinnugreina, þar sem þær hafa komist misvel úr faraldrinum. Því teldist það varla vera skynsamlegt að hækka öll laun óháð því hvort fyrirtæki geti staðið undir slíkri kjarabót.
Einnig ætti ekki að bregðast við innflutta verðbólgu frá nágrannalöndum með sjálfkrafa launahækkunum innanlands, þar sem slíkt myndi einungis bjóða upp á víxlverkun launa og verðbólgu. Því væri þáttur launþega í því að koma á sátt að stilla kaupkröfum í hóf.
Fyrirtæki stilli arðsemiskröfum í hóf
Aftur á móti segir Gylfi að vinnuveitendur þurfi einnig að leggja sitt af mörkum til að tryggja frið á vinnumarkaði, það sé ekki rétt að fela launþegum einum ábyrgð á þróun verðbólgu og almenns stöðugleika í efnahagslífinu.
Þá ættu innlend fyrirtæki, sem mörg hver hagnast vegna fákeppnisstöðu á markaði, að draga úr kröfum sínum um hagnað og arðsemi eigin fjár. Sem dæmi nefnir Gylfi sérstaklega bankakerfið, sem skiluðu miklum hagnaði á síðasta ári og viðhalda vaxtamun í samræmi við eigin kröfu um arðsemi.
Stjórnvöld geta líka hjálpað
Til viðbótar við þátt vinnuveitenda og launþega segir Gylfi að stjórnvöld gætu einnig lagt sitt af mörkum til að tryggja bætt lífskjör án þess að verðstöðugleikanum sé ógnað. Ein leið til þess væri að auka framboð á ódýru íbúðarhúsnæði, sem myndi lækka verð almennt á minni eignum.
Til skamms tíma væri svo hægt að lækka álögur á eldsneyti, svo hækkun á olíuverði á heimsmarkaði hafi minni áhrif á innlent eldsneytisverð. Samkvæmt Gylfa er það ekki sjálfsagt að styrjöld í Evrópu sem hækkar heimsmarkaðsverð á olíu auki tekjur ríkissjóðs.
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.