Aðalmeðferð í LÖKE-málinu svokallaða fór fram í morgun fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, og tók hálftíma. Saksóknari krafðist þess að sakfellt yrði í málinu en sakborningur yrði ekki dæmdur til refsingar. Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari hjá ríkissaksóknara staðfestir í samtali við Kjarnann að málinu sé nú lokið af hálfu ákæruvaldsins.
Kjarninn greindi í gær frá ákvörðun ríkissaksóknara um að falla frá veigamesta ákæruliðnum í málinu, þar sem Gunnari Scheving Thorsteinsson lögreglumanni var gefið að sök að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í mála í málaskrá lögreglunnar (LÖKE) og skoðað þar upplýsingar um konurnar, án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hans sem lögreglumanns. Ástæðu þess að ákæruvaldið felldi niður veigamesta ákæruliðinn má rekja til þess að málið var ekki rannsakað nógu ítarlega, en rannsókn málsins var á forræði ríkissaksóknara.
Í yfirlýsingu frá ríkissaksóknara í gær vegna málsins, kom fram að málið hafi ekki þótt líklegt til sakfellis við nánari skoðun.
Ákæruliðurinn sem var til aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, laut að ásökunum á hendur Gunnari Scheving um að hann hafi miðlað persónuupplýsingum sem leynt áttu að fara til þriðja aðila í gegnum Facebook.