Aðeins 1279 manns, eða þrjú prósent aldraðra, hafa beinan ávinning af því að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna úr 100 þúsund krónum í 200 þúsund krónur. Af þessum þremur prósentum sem breytingin gagnast eru tveir þriðju karlar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði félagsmálaráðuneytisins fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingi
Í fjárlagafrumvarp vegna ársins 2022 sem kynnt var í byrjun desember kemur fram að setja á 540 milljónir króna í að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum úr 100 þúsund í 200 þúsund krónur. Minnisblaðið var unnið að ósk Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem óskaði eftir því á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í síðustu viku. Fór hann fram á að í minnisblaðinu kæmi fram hver ábatinn af tvöföldun frítekjumarks upp í 200 þúsund krónur dreifist eftir tekjutíundum og kyni. Hann hefur jafnframt lagt fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra varðandi málið.
Kostnaður ríkissjóðs við tvöföldun frítekjumarks atvinnutekna er áætlaður um 560 milljónir króna og nýtur tekjuhæsta tíundin mests ávinnings af breytingunni en tvöföldunin hefur lítil sem engin áhrif hjá fyrstu sjö tekjutíundunum.
Tvöföldun almenna frítekjumarksins gagnast 89 prósentum aldraðra
Í minnisblaðinu er einnig tekið saman áhrif tvöföldun á almenna frítekjumarkinu úr 25.000 krónum í 50.000 krónur en það myndi dreifast jafnar milli kynja og skila sér betur til lágtekju- og millitekjuhópa. Kostnaður ríkissjóðs við þá aðgerð er áætlaður um 5 milljarðar króna og talinn gagnast um 35 þúsund einstaklingum eða 89 prósent aldraðra sem eru á skrá Tryggingastofnun ríkisins. Aðgerðin dreifist á allar tekjutíundir og kynjaskipting í samræmi við kynjaskiptingu þýðisins. Hæsta tíundin fær hlutfallslega minnsta ávinninginn.
„Hækkun frítekjumarks atvinnutekna er besta mál en hitt er miklu brýnna. Verði frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki hækkað er auðvitað lágmarkskrafa að frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum, sem hefur staðið í stað í áratug, hækki með sama hætti strax um áramótin,“ segir Jóhann Páll í færslu á Facebook þar sem hann vekur athygli á minnisblaðinu.
Ríkisstjórnin ætlar að hækka frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki upp í 200 þúsund krónur en láta almenna...
Posted by Jóhann Páll Jóhannsson on Sunday, December 19, 2021
Jóhann Páll bendir á að með því að hækka frítekjumark atvinnutekna aldraðra en láta almenna frítekjumarkið óhreyft verði frítekjumark atvinnutekna átta sinnum hærra heldur en það frítekjumark sem tekur til lífeyristekna eftir áramót. „Ég hef gagnrýnt þessa forgangsröðun harðlega og bent á að með þessu er m.a. fólk sem hefur unnið erfiðisvinnu, getur ekki unnið lengur og treystir á greiðslur úr lífeyrissjóði látið sitja eftir,“ segir Jóhann Páll í færslu sinni á Facebook.