Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra segist vera sáttur við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum síðustu fjögur ár en telur þó að gera þurfi enn betur.
Þing Norðurlandaráðs stóð yfir í vikunni í Kaupmannahöfn og mætti Guðmundur Ingi á fund umhverfisráðherra Norðurlandanna í gær við það tilefni.
Hann segir í samtali við Kjarnann að ráðherrarnir hafi annars vegar rætt loftslagsmálin og hvernig Norðurlöndin geti unnið saman að því að ná meiri árangri á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, sem nú stendur yfir, meðal annars með því að styðja hvert annað og að hvetja til meiri metnaðar hjá öðrum ríkjum – bæði hvað varðar samdrátt í losun, langtímamarkmið og aukin fjárframlög til þróunarlanda.
Hins vegar sendu þeir frá sér yfirlýsingu þar sem þeir hvöttu til þess að á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna, sem haldið verður í febrúar á næsta ári í Nairobi í Kenya, verði sett í gang formleg vinna við að semja um nýjan alþjóðlegan samning sem tekur á plastmengun.
„Þetta er eitthvað sem við höfum verið að vinna að á þessum vettvangi mjög lengi og við höfum verið að ýta mjög á þetta Norðurlöndin. Við erum í lykilstöðu með Norðmenn í formennsku umhverfisþingsins til að koma á formlegum samningaviðræður um þetta atriði.“
Hefurðu tilfinningu fyrir því hvernig það muni ganga?
„Hófleg bjartsýni í alþjóðlegu samstarfi er sennilega eina rétta svarið í þessu en það hafa farið fram heilmiklar umræður á fyrri stigum. Norðurlöndin hafa til dæmis haft forystu um það að vinna skýrslur um hver gætu verið efnisatriði um slíkan samning. Og það er verið að vinna skýrslu núna um hvernig mætti fjármagna samning sem þennan og hvert ætti að beina því fjármagni.“
Þannig sé undirbúningsvinna búin að vera mikil hjá Norðurlöndunum – sem og hjá Þýskalandi, Japan, Ghana, Ekvador, Víetnam og fleiri ríkjum. „Þannig að ég er sæmilega bjartsýnn að við náum að stíga mikilvæg skref í Nairobi í febrúar.“
Guðmundur Ingi segir að samningarnir snúist um aðgerðir til að draga úr plastmengun, hvaða leiðir séu færar til að ná því markmiði og hvernig sé hægt að styðja ríki sem ekki hafa sterka innviði í þessum málefnum, til að mynda þróunarríkin þar sem mikið plast berst í hafið.
Stíga skref í átt að 1,5 gráðu markmiðinu
Guðmundur Ingi mun fara til Glasgow í næstu viku þar sem hann mun sækja fyrrnefnda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
„Það leggst bara ágætlega í mig. Það mikilvægasta er að við fáum nægilega mikið út úr þessari ráðstefnu til að halda markmiðinu að halda hlýnuninni innan við 1,5 gráður lifandi. Ég er ekki viss um að við náum loforðum sem munu halda hlýnuninni þar en vongóður um að við stígum ákveðin skref í þá átt og getum þá haldið áfram að ná því markmiði með frekari loforðum ríkja.
En síðan eru það aðgerðirnar sem mestu máli skipta en ekki bara markmiðin. Þau eru vissulega til alls fyrst. Við erum að sjá gríðarlega mikla framþróun í þessum málaflokki,“ segir hann.
Af hverju gengur erfiðlega að ná þessum markmiðum með aðgerðum?
„Það er kannski vegna þess að kerfin okkar eru svolítið eins og síróp, seigfljótandi og bregðast ekki öll mjög hratt við breytingum. Til dæmis allt okkar velferðarsamfélag byggir á orkunotkun sem er ekki sjálfbær – svona í grundvallaratriðum. Við erum að nota kol, olíu og gas að stórum hluta ennþá og það er þar sem þarf að breyta og fara að nota endurnýjanlega orkugjafa. Það er að gerast en það gerist ekki yfir nótt. Mætti það gerast hraðar? Já, sannarlega.“
Guðmundur Ingi segir að tæknin sé komin mislangt eftir því hvaða geira um ræðir. „Við á Íslandi erum náttúrulega mjög heppin með okkar auðlindir; með vatnsaflið og jarðhitann sem hefur gert okkur kleift að vera með næstum því 100 prósent endurnýjanlega orku þegar kemur að húshitun og rafmagnsframleiðslu. En það er ekki þannig þegar kemur að vegasamgöngum, skipum og flugi.
Sum ríki eru enn að vinna í því að skipta út kolum, olíu og gasi þegar kemur að húshitun og rafmagnsframleiðslu sem er ekki hjá okkur en gefur okkur þá tækifæri til að ná meiri árangri í öðrum geirum eins og í samgöngum.“
Ísland verði að nýta nýja tækni
Guðmundur Ingi segir að það sé mikilvægt að nýta tímann vel til þess að setja í gang aðgerðir sem leiða til þess að Íslendingar verði í fararbroddi þeirra sem taka nýja tækni inn og fara að nota hana. „Við framleiðum ekki vélar í skip eða bíla á Íslandi en við getum verið land sem nýtir sér tæknina hratt og örugglega. Þar höfum við dæmi eins og rafbílavæðinguna en þar eru hvatar og skattaafslættir til að ýta undir það. Þar erum við í öðru sæti á eftir Norðmönnum í þeim orkuskiptum og það er gríðarlega mikilvægt að við getum tekið þá reynslu og heimfært hana á aðra geira, ekki síst í þungaflutningum, á skip og flugvélar.“
Ertu sáttur við hraða þessara aðgerða?
„Ég held að umhverfissinni sé aldrei sáttur við þann hraða sem er í gangi í dag þegar kemur að umhverfismálum. Ég er aftur á móti sáttur við margar af þeim aðgerðum sem við höfum sett í gang,“ segir hann og á þá við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum síðustu fjögur ár. Hann bætir því þó við að hann sé fyrstur til að viðurkenna að Íslendingar verði að gera enn meira.
„Þessir hlutir þurfa að gerast hraðar,“ segir hann að lokum.