Viðræður aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), Íslands, Noregs og Liechtenstein, við Evrópusambandið vegna greiðslna í Þróunarsjóð EFTA eru í hnút. Greiðslurnar eru stærsta fjárhagslega skuldbindingin sem ríkin greiða til Evrópusambandsins vegna samningsins og eru oft kallaðar aðgöngumiðinn að innri markaði Evrópu. Heimildir Kjarnans herma að fulltrúar Evrópusambandsins hafi farið fram á allt að þriðjungshækkun á framlögum í sjóðinn. Hvorki íslensk né norsk stjórnvöld hafa viljað upplýsa hversu háar kröfurnar eru. Það hefur Evrópusambandið ekki heldur viljað.
Ísland greiddi 4,9 milljarða króna í sjóðinn á árunum 2009–2014 og miðað við áætlaðar kröfur Evrópusambandsins ættu greiðslur okkar að hækka um rúmlega einn og hálfan milljarð króna á næstu fimm árum. EFTA-ríkin þrjú sem greiða í sjóðinn hafa hafnað þessum kröfum og sagt þær óraunhæfar. Ekkert þeirra er tilbúið að taka á sig hækkanir af þessari stærðargráðu.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_09_04/14[/embed]
Samningurinn runninn út
Samið er til fimm ára í senn um framlögin. Síðast náði samkomulagið yfir tímabilið frá 1. maí 2009 til 30. apríl 2014. Það samkomulag er því á enda runnið. Viðræðurnar um það samkomulag voru fjarri því að vera dans á rósum. Þær gengu raunar það erfiðlega að ekki samdist fyrr en tæpu ári eftir að fyrra samkomulag var útrunnið, eða á fyrri hluta árs 2010. Þá var samið um að framlög Íslands, Noregs og Liechtenstein myndu hækka um 33 prósent á milli tímabila en að tvö síðarnefndu ríkin myndu taka meirihluta hækkunarinnar á sínar herðar vegna þeirrar stöðu sem var uppi í íslensku efnahagslífi eftir bankahrunið haustið 2008. Heimildir Kjarnans herma að kröfur Evrópusambandsins um hækkun séu af sambærilegri stærðargráðu og um samdist síðast.