Evrópuþingið hefur áhyggjur af því að EES-ríkin þrjú, Ísland, Noregur og Lichtenstein, óski í auknum mæli eftir aðlögunum og undanþágum frá EES-gerðum sem þeim er skylt að taka upp samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þingið telur þessar beiðnir leiða til óþarfra tafa og valdi sprungum á innri markaðnum.
Þetta kemur fram í fyrstu drögum að þingsályktun sem nefnd Evrópuþingsins um innri markaðinn og neytendavernd vinnur nú að um EES-samninginn og samskipti Evrópusambandsins við Sviss.
Evrópuþingmaðurinn Andreas Schwab er skýrslugjafi nefndarinnar en hann mun fjalla um þessi mál á fundi Alþjóðamálastofnunar á morgun.
Í skýrsludrögunum er áhyggjum lýst af þessu ástandi og Ísland, Noregur og Liechtenstein eru sterklega hvatt til þess að bæta úr þessu ástandi þannig að jöfn tækifæri allra séu tryggð á innri markaðnum.
Áhyggjur af innleiðingarhalla Íslands
Í skýrslunni er einnig vikið að innleiðingarhalla EES-ríkjanna, sem er stuðull sem mælir hversu margar EES-gerðir ríkin innleiða ekki á réttum tíma. Hallinn hefur undanfarin ár verið langmestur hjá Íslandi og samkvæmt síðasta frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, var hallinn um mitt ár í fyrra 3,1 prósent. Á sama tíma var innleiðingarhallinn 1,9 prósent í Noregi og 0,7 prósent í Liechtenstein.
Áhyggjum er lýst yfir vegna þessa halla, bæði á Íslandi og í hinum ríkjunum, þar sem hann hefur aukist mikið undanfarin ár. Nauðsynlegt sé að EES-löggjöf sé tekin upp í ríkjunum eins skömmu eftir að hún er tekin upp í ESB-ríkjunum og hægt er. Ríkin eru hvött til þess að leggja meira á sig til þess að ná tökum á innleiðingarhallanum.
Vikið er sérstaklega að Íslandi í skýrsludrögunum og kemur fram þar að Evrópuþingið taki bréf íslensku ríkisstjórnarinnar um stöðu Íslands sem umsóknarríkis að ESB til greina. Í ljósi þess eru Íslendingar sterklega hvattir til þess að spýta í lófana og uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum.
Íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir vilja sínum til þess að taka á innleiðingarhallanum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga hefur málum ESA gegn Íslandi fjölgað mikið undanfarið, en þau eru til komin vegna tafa á innleiðingum. Í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál, sem hann lagði fyrir þingið í síðasta mánuði, kemur fram að ellefu dómar hafa fallið gegn Íslandi á síðasta ári. Fjögur mál til viðbótar eru til meðferðar. Í skýrslunni kemur einnig fram að þessi staða sé ríkt áhyggjuefni fyrir stjórnvöld.
Samkvæmt Evrópustefnu stjórnvalda á að bæta úr þessum málum og skipaður hefur verið starfshópur sem á að fara yfir þessi mál. Samkvæmt sömu stefnu áttu ekki að vera nein dómsmál af þessu tagi fyrir dómstólum á fyrri hluta þessa árs, og innleiðingarhallinn átti að vera kominn niður fyrir 1 prósent.