Anders Fogh Rasmussen stýrði sínum síðasta leiðtogafundi sem framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins NATO á dögunum. Hann hefur sett svip sinn á NATO og persónugert upplýsingastefnu stofnunarinnar án fordæma.
Ráðgjafar hans hafa lagt þunga áherslu á að Anders Fogh komi fyrir sjónir sem andlit stofnunarinnar út á við. Hann sé sterkur leiðtogi hjá NATO en jafnframt athafnasöm persóna sem hiki ekki við að deila jákvæðum sögum úr einkalífi sínu með fylgjendum á samfélagsmiðlum.
Vinsælasti leiðtoginn
Í stað þess að taka fyrir þung og erfið álitamál hefur Anders Fogh mýkt ímynd stofnunarinnar svo um munar. Þetta hefur gert hann að vinsælasta leiðtoga alþjóðastofnunar á samfélagsmiðlum, með 142 þúsund fylgjendur á Facebook og 200 þúsund á Twitter. Til samanburðar er Herman van Rompuy, leiðtogi ráðherraráðs Evrópusambandsins, aðeins með 35 þúsund fylgjendur á Facebook.
Anders Fogh hefur gert það að algjöru forgangsmáli að skapa jákvæða ímynd af NATO þar sem hann sjálfur hefur verið í forgrunni. Hágæðaljósmyndir eru birtar á Facebook, Twitter og ljósmyndasíðunni Flickr af fundum hans með þjóðarleiðtogum um víða veröld. Þá sýna ráðgjafar hans alheiminum sömuleiðis hann reglulega á morgunskokki, hjólreiðum eða jafnvel í flúðasiglingum eða fallhlífastökki. Anders Fogh sendir sömuleiðis reglulega frá sér vídeóblogg á YouTube þar sem hann fjallar gróflega um efnisatriði hvers fundar og stefnumál.
Valin upplýsingaleynd
Hernaður hefur orðið undir í þessari nýju upplýsingastefnu NATO. Þess í stað er áhersla lögð á sýnileika borgaralegra verkefna stofnunarinnar, stjórnmálaleg tengsl og áhrif. Myndir af átakasvæðum heyra til algjörra undantekninga og sýna þá aðeins borgaralega starfsemi eða vinalega ímynd af hermönnum NATO. Lykilorðið „varnarbandalag“ er haft að leiðarljósi og forðast að „hernaðarbandalag“ liti umræðuna. Mjúkar áherslur eru meira að segja í fyrirrúmi nú þegar NATO stendur frammi fyrir borgarastyrjöld í Austur-Úkraínu.
Þrátt fyrir að NATO hafi sett aukinn kraft í almannatengsl finnast litlar sem engar upplýsingar um mikilvæg málefni á vefsvæði stofnunarinnar, svo sem fjárveitingar til ákveðinna málaflokka og starfsmannahald. Kostnaði við skrifstofu og laun framkvæmdastjórans er til að mynda haldið leyndum.
Borgaraleg verkefni fengu úthlutað 33,4 milljörðum króna samkvæmt fjárlögum NATO árið 2014. Þessi fjárlagaliður nýtist meðal annars til að greiða launakostnað alþjóðlegs starfsfólks höfuðstöðva NATO í Brussel. Síðustu ár hefur um fimmtungi til fjórðungi þessa útgjaldaliðs verið varið í upplýsingamál. Hernaðarhluti NATO fékk að sama skapi 215 milljarða króna árið 2014. Ísland greiðir 265 milljónir króna til NATO samkvæmt fjárlögum þessa árs, langminnst allra aðildarríkja þess.
Sú upplýsingastefna sem Anders Fogh hefur rekið hjá NATO hefur þar af leiðandi engan veginn endurspeglað verkaskiptingu og raunverulegt hlutverk stofnunarinnar, sem er mun frekar hernaðarlegt heldur en borgaralegt.
Ósýnilega höllin
Meðal áhugaverðustu ímyndarverkefna Anders Fogh er bygging nýrra höfuðstöðva NATO í Brussel. Lögð er áhersla á jákvæða frásögn og framtíðarmöguleika NATO þrátt fyrir gríðarlegan umframkostnað og tafir við verkefnið.
Eftir útboð verksins var samningur gerður við verktakann BAM Alliance árið 2010 sem átti lægsta boð, 71 milljarð króna. Fjárhagserfiðleikar BAM Alliance og misreikningar hafa verið ræddir innanhúss í NATO og að raunkostnaður við byggingarframkvæmdirnar geti orðið 30 milljörðum hærri. Áætlaður heildarkostnaður NATO við bygginguna og flutninga í nýtt húsnæði var 115 milljarðar króna, en óttast er að hann fari fram úr heimildum sem voru 155 milljarðar króna.
BAM Alliance átti upphaflega að skila byggingunni af sér í byrjun árs 2015, en nú bendir allt til þess að framkvæmdin dragist um allt að tvö ár.
Nýju höfuðstöðvarnar eru ágætt dæmi um hvernig NATO hefur reynt að hylma yfir neikvæða umfjöllun um fjármál og önnur málefni stofnunarinnar.
Stuðningur í Danmörku
Anders Fogh nýtur ennþá mikilla vinsælda í Danmörku og hefur stuðningshópur hans kallað eftir því að hann snúi aftur sem hugsanlegur arftaki Lars Løkke Rasmussen, formanns stjórnmálaflokksins Venstre. Flokkurinn heldur landsþing fjórða til fimmta október og er almenn óánægja með Lars Løkke, sem 37 prósent Dana telja óhæfan til að verða forsætisráðherra.
Anders Fogh var leiðtogi Venstre og forsætisráðherra Danmerkur á einu stærsta gullaldarskeiði flokksins frá 2001 til 2009. Nú vill Venstre komast aftur til valda og koma vinstristjórninni frá. Á föstudag útilokaði Anders Fogh í viðtali við TV2 að hann ætti afturkvæmt í dönsk stjórnmál.
„Þann fyrsta október byrjar nýtt líf. Ég hef ekki tekið neina endanlega ákvörðun um hvað verður svo gert. En ég vil gjarnan slá tvennu föstu við. Ég hef hvorki áform um að snúa aftur í dönsk stjórnmál né um að verða eftirlaunaþegi,“ sagði hann.
Jens fyllir skóna
Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, verður arftaki Anders Fogh sem framkvæmdastjóri NATO. Hann hefur sömuleiðis verið afar áhugasamur um að nýta sér nýmiðla til að vekja athygli á störfum sínum. Hann fór óhefðbundna leið fyrir þingkosningarnar í Noregi í fyrra þegar hann keyrði leigubíl í einn dag til að kynnast kjósendum, en var gagnrýndur fyrir að nota auglýsingastofu til að skipuleggja viðburðinn.
Jens er 55 ára og áhugamaður um útivist, hlaup, fjallgöngur og skíðamennsku og mun því falla vel í mynstrið í þeirri upplýsingastefnu sem Anders Fogh ýtti úr vör, með tvöfalt fleiri fylgjendur á samfélagsmiðlum í fararteskinu.