Fyrir hluthafafundi í Síldarvinnslunni hf., sem fer fram næstkomandi föstudag, liggur tillaga um um að færa eignarhlut félagsins í SVN eignafélagi ef. yfir til hluthafa áður en að Síldarvinnslan verður skráð á markað. Það á að gera í formi arðsúthlutunar í skattalegu tilliti en hluthafar eiga þó einnig kost á því að fara fram á greiðslu í reiðufé að frádregnum fjármagnstekjuskatti, fari þeir fram á það.
Þetta kemur fram í fundarboði sem birt var á heimasíðu Síldarvinnslunnar í lok síðustu viku.
Eina eign SVN eignafélags er 14,52 prósent hlutur í tryggingafélaginu Sjóvá, en félagið er stærsti eigandi þess. Miðað við núverandi gengi bréfa í Sjóvá er virði hlutarins tæplega 5,7 milljarðar króna. SVN eignafélag er því sem næst skuldlaust miðað við síðasta birta ársreikning.
Markaðsvirðið gæti verið allt að 100 milljarðar
Tilkynnt var um það í byrjun febrúar að stefnt væri á skráningu Síldarvinnslunnar á markað seint í vor eða snemma í sumar. Fyrirtækið er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins en eigið fé þess var 46 milljarðar króna á núvirði í lok árs 2019 og miðað við að rekstrarhagnaður félagsins á því ári var á níunda milljarð króna má ætla að það hafi aukist í fyrra.
Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Síldarvinnslan er skráð á markaði. Hún var skráð í Kauphöll um áratugaskeið frá 1994 til 2004. En félagið er töluvert öðruvísi, og mun stærra, nú en það var þá.
Verðmætasta bókfærða eign félagsins voru veiðiheimildir, aðallega í uppsjávartegundum, sem voru sagðar 228,3 milljónir dala í lok árs 2019. Á gengi dagsins í dag gera það um 30 milljarðar króna. Raunverulegt virði þeirra heimilda er mun meira, líklega nær 80 milljörðum króna. Sá loðnukvóti sem nú hefur verið úthlutað mun bæta afkomu Síldarvinnslunnar á yfirstandandi ári.
Samherji stærsti eigandinn
Stærsti einstaki eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji hf. með 44,6 prósent eignarhlut. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, á 15 prósent hlut í öðru félagi sem á 5,3 prósent hlut í Síldarvinnslunni. Samherji á því, beint og óbeint, 49,9 prósent í Síldarvinnslunni. Þorsteinn Már Baldvinsson, annar forstjóri Samherja, er stjórnarformaður félagsins. Auk þess á Síldarvinnslan 0,92 prósent í sjálfri sér, sem þýðir að samanlagður eiginhlutur hennar og eignarhluti stærsta eigandans fer nálægt 51 prósenti.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja hf, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,02 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 prósent hans.
Samanlagt er þessi blokk Samherja og Síldarvinnslunnar með að minnsta kosti 17,5 prósent aflahlutdeild.
Gamli forstjórinn á meðal næst stærstu eigenda
Næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er félagið Kjálkanes ehf. Á meðal helstu hluthafa þess er Björgólfur Jóhannsson, sem var þangað til fyrir skemmstu hinn forstjóri Samherja, og fjölskylda hans. Sami hópur á einnig útgerðarfélagið Gjögur, sem heldur á 2,29 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum.
Ef sá kvóti er talin með ofangreindu er ljóst að rétt undir fimmtungur (19,79 prósent) af öllum úthlutuðum aflaheimildum landsins eru á höndum fyrirtækja sem eru að einhverju leyti í eigu þeirra tveggja manna sem sátu saman í forstjórastólum Samherja, þangað til að Björgólfur ákvað að hætta fyrr á þessu ári.
Báðir þessir aðilar munu selja hluti í Síldarvinnslunni í því hlutafjárútboði sem er framundan og ættu að geta leyst út margra milljarða króna hagnað.
Verði tillagan um að greiða eignarhlutinn í Sjóvá út til hluthafa samþykkt mun hann því að mestu renna til Samherja og Kjálkaness.
Þriðji stærsti eigandinn er Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað sem á tæplega ellefu prósent hlut. Það var stofnað árið 1932 og starfar sem eignarhaldsfélag auk þess sem það rekur verslanir og umboðsstarfsemi. Það hefur meðal annars nýtt arðinn af eign sinni í Síldarvinnslunni til þess að styrkja menningar- og félagsmál í heimabyggð.