Reykjavíkurborg ætlar sér að ráðast í nokkrar aðgerðir til þess að reyna að laða fólk að störfum á leikskólum, meðal annars nýja auglýsingaherferð og verkefni sem felst í að greiða starfsmönnum leikskóla fyrir að fá vini og ættingja til starfa í skólunum. Alls er um að ræða 75 þúsund króna launaauka sem greiddur er út þegar vinurinn eða ættinginn er búinn að starfa í þrjá mánuði á leikskóla.
Áætlaður kostnaður við launaaukann nemur fimm milljónum króna af þeim 20 milljón krónum sem borgarráð samþykkti í gær að ráðstafa til aðgerða sem ætlað er að fjölga starfsmönnum á leikskólum borgarinnar.
Í tillögum frá skóla- og frístundasviði sem lagðar voru fram af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í borgarráði í gær segir að fyrirhuguð fjölgun leikskólaplássa á næstu árum feli í sér að fjölga þurfi starfsmönnum á leikskólum um 250-300 næstu 3-4 árin. Búast megi við því að það verði krefjandi, þar sem ekki hafi tekist að fullmanna leikskóla borgarinnar í haust.
Auk þeirra aðgerða sem þegar hafa verið nefndar er lagt til að bæta auglýsingar leikskóla á umsóknarvef borgarinnar og búa til sérstaka lendingarsíðu á netinu fyrir leikskólana, þar sem „dregnar verða fram mikilvægar upplýsingar um störfin og þau hlunnindi sem störfunum fylgja.“
Þá er áformað að efla mótttöku nýliða í leikskólunum og reyna að draga úr því að þeim sé „hent beint í djúpu laugina“ og „stórefla íslenskukennslu,“ helst á þann máta að hún fari fram áður en fólk hefji störf á leikskólunum. Talið er að þetta myndi stækka umsækjendahópinn.
Einnig er áformað að ráðast í frekari greiningar á umsóknum á leikskólana og starfsmannaveltu, meðal annars á því hvernig laða megi fleira ungt fólk til starfa á leikskólum og hvað útskýri starfslok á leikskólum borgarinnar.
Áformað er að ráða sérstakan mannauðsráðgjafa til eins árs til þess að halda utan um þetta átaksverkefni í mannauðsmálum leikskólanna, en áætlaður kostnaður við það er um 12 milljónir króna.
Einnig er áætlað að styðja sérstaklega við leikskóla sem eru í miklum vanda vegna mönnunar um þessar mundir með tímabundinni ráðningu aðila úr hópi núverandi eða fyrrverandi leikskólastjóra til þriggja mánaða. Þessi starfsmaður ætti að greina helstu vandamálin sem leikskólastjórar standa frammi fyrir og leita á þeim lausna og veita stuðning og handleiðslu. Áætlaður kostnaður við þetta er þrjár milljónir.
Ekki ráðist að rót vandans
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, gagnrýndi þessar áformuðu aðgerðir í bókun sinni á fundinum í gær og sagði að ekki væri ráðist að rót vandans, sem væru launakjör og starfsaðstæður.
„Það verður að horfast í augu við rót vandans og skoða raunverulegar ástæður þess af hverju illa gengur að ráða fólk til starfa á leikskólum en ekki setja það á herðar starfsfólks að fá nýja inn. Sama hversu mikið er auglýst eða fólk hvatt til þess að sækja um, þá stendur eftir sú staða að hér eru störf sem ekki er mikið greitt fyrir. Starfsfólk leikskólans ætti að fá launaauka fyrir að vinna mikilvægasta starf í heimi eins og auglýsingaherferðir hafa sannarlega bent réttilega á. Starfsfólk leikskóla hefur verið undir miklu álagi, hefur þurft að hlaupa hratt og sinna miklu undir álagi, sérstaklega þegar áhrifum COVID er bætt ofan á,“ sagði Sanna Magdalena í bókun sinni.
Hún bætti því við að hún sæi ekki hvernig það að koma á launaauka sem sumir fengju og aðrir ekki fyrir að útvega starfsfólk, yrði til þess að bæta stöðuna.
„Það er á ábyrgð borgarinnar að manna stöður, ekki á að færa þá ábyrgð á starfsfólk leikskóla.“