Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, segist gera ráð fyrir því að nefndin muni óska eftir frekari upplýsingum um eigendur Auðar 1, framtakssjóðs í rekstri Virðingar, sem skráður er með 18,6 prósent beinan eignarhlut í fjölmiðlarisanum 365 miðlum á heimasíðu nefndarinnar. Auður 1 er í eigu rúmlega 20 fjárfesta en eignarhaldið er ekki, líkt og tíðkast oft með framtaks- og fjárfestingasjóði, opinbert. Heimildir Kjarnans herma hins vegar að stærstu eigendur Auðar 1 séu íslenskir lífeyrissjóðir auk þess sem nokkrir einstaklingar eiga líka hlut í sjóðnum.
Framtakssjóður með óþekktum eigendum
Kjarninn greindi frá því í morgun að eigendur Tals munu fá 19,78 prósent hlut í 365 miðlum samþykki Samkeppniseftirlitið samruna félaganna tveggja. Eignarhlutur félaga á vegum Ingibjargar Pálmadóttur, sem hefur verið aðaleigandi 365 miðla um nokkurra ára skeið, minnkar við þetta niður í 77,97 prósent.
Eigandi Tals í dag er félagið IP fjarskipti. Eigendur þess eru áðurnefndur fagfjárfestasjóður, Auður 1, sem á 94 prósent hlut, og Kjartan Örn Ólafsson, sem á sex prósent hlut.
365 miðlar eru langstærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins í einkaeigu. Það rekur meðal annars Fréttablaðið, Stöð 2, Vísi.is og Bylgjuna.
Ari Edwald seldi hluta
Elfa Ýr segir lög um fjölmiðla kveða skýrt á um að fjölmiðlanefnd geti óskað eftir upplýsingum um eignarhald og yfirráð yfir fjölmiðlum. „Ég geri frekar ráð fyrir að það verði óskað eftir því, en við munum jafnframt líka fara yfir þetta á fundi fjölmiðlanefndar á föstudag.“
Á heimasíðu fjölmiðlanefndar sést einnig að hlutur Ara Edwald, sem var forstjóri 365 miðla um margra ára skeið en lét af störfum í sumar, hefur minnkað úr 6,2 prósentum í 2,25 prósent. Í samtali við Kjarnann sagði Ari að hann hefði selt eitthvað af sínum hlut en hann hefði líka þynnst út vegna hlutafjáraukningar. Hann vildi ekki segja hver kaupandinn að hlutnum var en ljóst er að það er annað hvort félög á vegum Ingibjargar Pálmadóttur eða eigendur Tals.