Forsætisráðuneytið ætlar ekki að fara fram á að Seðlabanki Íslands afhendi sér öll umrædd gögn sem snerta stöðugleikasamninganna við kröfuhafa fölllnu bankanna árið 2015 og fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Katrín Jakobsdóttir mun því ekki leggja sérstakt mat á erindi þeirra við almenning. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við beiðni Kjarnans þar um
Sú beiðni um sérstakt mat grundvallast á fyrri framkvæmd fjármála- og efnahagsráðherra ákvað að leggja sjálfstætt mat á birtingu lista yfir kaupendur að hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars síðastliðnum sem hann fékk frá Bankasýslu ríkisins.
Áður hafði Kjarninn greint frá því að forsætisráðuneytið teldi það hlutverk Seðlabanka Íslands að leggja mat á hvort opinbera eigi upplýsingarnar. Það hefur hann aldrei viljað gera, og Kjarninn kærði síðustu synjun hans til úrskurðarnefndar um upplýsingamál 7. júní síðastliðinn. Í þeirri kæru var sérstaklega farið fram á að nefndin fjalli um málið á grundvelli ákvæðis sem bætt var við lög um Seðlabanka Íslands árið 2019, þar sem bankanum er veitt heimild til að víkja frá þagnarskylduákvæði, „enda vegi hagsmunir almennings af birtingunni þyngra en hagsmunir sem mæla með leynd.“
Seðlabankinn óskaði eftir, og fékk, viðbótarfrest til að skila inn umsögn um kæru Kjarnans til 8. júlí. Sá frestur fékkst með vísum til bæði sumarleyfa og mikilla anna vegna annarra verkefna.
Hefur ekki viljað leggja mat á hagsmuni almennings
Í athugasemdum með frumvarpinu um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands frá 2019 segir að áður en ákvörðun sé tekin um slíka afhendingu þurfi að liggja fyrir greining á þeim hagsmunum sem vegast á í hverju tilviki fyrir sig. „Þá beri við mat á hagsmunum almennings af birtingu upplýsinga m.a. að líta til þess hvort þær varði ráðstöfun opinberra hagsmuna, sem almenningur eigi almennt ríkan rétt til að kynna sér hvernig staðið er að.“
Samkvæmt þeim rökstuðningi virðist Seðlabanki Íslands telja að það viðbótarákvæði sem bætt var inn í lög um starfsemi hans af löggjafarvaldinu árið 2019 sé marklaus.
Sent eftir ákvörðun Bjarna
Kjarninn sendi í vor út fjölda fyrirspurna um ráðstafanir opinberra hagsmuna eða sértækra gæða sem átt hafa sér stað á undanförnum árum. Það var upphaflega gert í kjölfar þess að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði „sjálfstætt mat“ á að birta ætti lista yfir kaupendur að 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka þrátt fyrir að Bankasýsla ríkisins, sem heyrir undir það ráðuneyti, teldi þá birtingu ekki standast lög.
Þegar listinn yfir þá sem fengu að kaupa í Íslandsbanka var birtur sagði í tilkynningu sem birt var á vef stjórnarráðsins að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði metið málið þannig að upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta falli „ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna hefur ráðherra ákveðið að birta yfirlitið.“
Í tilkynningu formanna sitjandi stjórnarflokka sem birtist á vef stjórnarráðsins 19. apríl síðastliðinn, stóð svo að traust og gagnsæi verði að ríkja um sölu á eignum ríkisins. Í þeirri tilkynningu sagði orðrétt: „Almenningur á skýra og óumdeilda kröfu um að allar upplýsingar séu uppi á borðum um slík áform, markmið þeirra og áhrif.“
Kjarninn vildi að forsætis- og fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem Seðlabanki Íslands heyrir undir, myndu leggja sambærilegt sjálfstætt mat á birtingu upplýsinga frá bankanum. Það hefur hvorugt ráðuneytið viljað gera.