Hópur íslamskra öfgamanna ætlaði sér að gera árásir á lögreglustöðvar og á lögreglumenn í Belgíu. Tveir menn voru skotnir til bana í stórri lögregluaðgerð í Verviers í Belgíu í gær, þar sem grunur lék á að mennirnir ætluðu að láta til skarar skríða. Þeir hófu skothríð á lögreglumenn sem svöruðu með skotum til baka, og féllu mennirnir tveir sem grunaðir voru um að ætla að drepa lögreglumenn.
Þrettán hafa verið handteknir í Belgíu á undanförnum sólarhring, samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC, og tveir í Frakklandi.
Samkvæmt upplýsingum frá talsmanni lögreglunnar, Eric Van Der Sypt, sem BBC vísar til, hafði lögreglan skýrar sannanir fyrir því að mennirnir ætluðu sér að ráðast á lögregluna með það að markmiði að drepa sem flesta.
Hámarksöryggsgæslan er nú við ýmsar opinberar byggingar í Belgíu, en ekki hefur verið staðfest ennþá að allir þeir sem grunaðir eru um aðild að undirbúningi árásanna hafi verið handteknir.