Rekstrarfyrirkomulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu sker sig frá því sem tíðkast í flestum nágrannalöndum Íslands, en fátítt er að bæði stjórn og skipulagning þjónustunnar og akstur vagna sé á sömu opinberu hendinni, samkvæmt því sem fram kemur í nýlegri skýrslu sem VSB verkfræðistofa vann fyrir Strætó.
Almenningsferðastofur og akstursaðilar
Á enskri tungu eru tvö mismunandi nöfn yfir þessi tvö mismunandi hlutverk, stofnanir sem stýra og skipuleggja almenningssamgönguþjónustu eru kallaðar Public Transport Authority en þeir aðilar sem keyra strætisvagnana eru Public Transport Operator.
Orð yfir fyrrnefndu stofnanagerðina er varla til í íslenskri tungu, sökum þess að engar hreinræktaðar slíkar eru starfandi á Íslandi, en þær eru kallaðar almenningsferðastofur í skýrslu VSB en þau félög sem aka vaganana akstursaðilar.
Strætó sinnir þessum báðum hlutverkum í dag án nokkurra skila á milli mismunandi þátta rekstursins, en fyrirtækið útvistar þó um helmingi prósent af öllum akstri sínum til annarra akstursaðila.
„Strætó bs er því með tvo hatta, almenningsferðastofuhatt (AFS) og akstursaðilahatt,“ segir í skýrslunni, sem var ætlað að vera innlegg í skoðun á því hvort Strætó skuli halda áfram að aka eigin vagna að einhverju leyti eða bjóða út allan akstur og hvað megi læra af reynslu annarra ríkja í þessum efnum.
Fyrirkomulag Strætó á skjön við öll Norðurlöndin, Holland og Eistland
Við skýrslugerðina setti VSB sig í samband við sex almenningsferðastofur og tvo akstursaðila í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Hollandi og Eistlandi til þess að að skoða kosti og galla núverandi kerfis hjá Strætó.
„Engin fordæmi fundust í löndunum sex fyrir samskonar fyrirkomulagi og uppsetningu og Strætó bs. Einstaka dæmi voru nefnd þar sem akstur vagna er ennþá á höndum opinberra aðila en þá er um að ræða akstursaðila í opinberri eigu. Skýr skil eru þannig alltaf á milli stjórnsýslueiningarinnar/almenningsferðastofunnar (AFS) og aksturaðilans,“ segir í skýrslunni.
Fyrir árið 1990 var hins vegar algengt að stjórnsýsla og skipulag aksturs væru á sömum höndum í Norður-Evrópu, en það er liðin tíð. Lagaumhverfið fyrir almennningssamgöngur og útboðsmál í Evrópu breyttist á árunum 1985-2000 og það leiddi til þess að skilið var á milli þeirra opinberu aðila sem skipuleggja og stýra samgöngunum og þeirra aðila sem keyra.
Þó eru dæmi um það, t.d. í Árósum í Danmörku, að opinberir aðilar eigi fyrirtæki sem sinnir akstri almenningsvagna. En það er bara af því að það tókst ekki að selja fyrirtækið, samkvæmt því sem segir í skýrslunni.
Strætó hefur notað svokallaða samningskaupaleið við útvistun á sínum eigin akstri og hið sama á við hjá öllum þeim almenningsferðastofum í Norður-Evrópu sem veittu VSB upplýsingar um sína starfsemi. Þau svör fengust að almennt tæki útboðsferli fyrir almenningssamgöngur fremur langan tíma, eða á bilinu 2-3 ár.
Mikil endurnýjunarþörf í flotanum
Eins og Kjarninn sagði frá í fréttaskýringu um rekstrarstöðu Strætó fyrir rúmu ári síðan var aukin útvistun aksturs á meðal þess sem ráðgjafar frá KPMG sögðu vert að skoða til þess að mæta þeirri stöðu að strætisvagnaflotinn á höfuðborgarsvæðinu er orðinn fremur gamall.
Strætó á lítið fé til þess að ráðast í nauðsynlega endurnýjun vagnakostsins og er meira að segja að grípa til hagfræðingaraðgerða um þessar mundir – sem felast í því að skera síðustu ferð dagsins aftan af ferðaáætlunum á allmörgum leiðum á höfuðborgarsvæðinu.
Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó sagði við Kjarnann í fyrra að útboðsferli fyrir vagna væri tímafrekt og leysti ekki málin til skemmri tíma, en að til lengri tíma þyrftu sveitarfélögin sem eiga Strætó að marka sér stefnu um hvort halda ætti áfram að aka eigin vagna eða útvista öllum akstri eins og gert væri í höfuðborgum nágrannalanda.
Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi Samfylkingar er stjórnarformaður Strætó bs. Hann segir í samtali við Kjarnann að það sé ekki búið að taka neinar ákvarðanir um þessi mál í stjórn Strætó, en að það geti verið að hlutfall útvistunar breyttist aðeins með hinu nýja leiðakerfi Strætó sem til stendur að innleiða.
Hann segir hugmyndir um að útvista öllum akstri Strætó hafa komið til umræðu á vettvangi stjórnar, en að það sé ekki búið að taka neina ákvörðun. „Í mínum huga er eðlilegt að taka ákvörðun um það þegar nær dregur því að Borgarlínan fari að komast í gagnið,“ segir Hjálmar.
Spurður um hvort ekki þurfi að fara að taka ákvarðanir um þessi efni, þar sem útboð um hvort heldur nýja vagna eða útvistun aksturs geti verið tímafrek, segir Hjálmar að stjórnin sé „meðvituð um að tíminn líður“ en þó sé ekki komið að neinni úrslitastundu enn.