Arnar Þór

Án nýrrar lántöku yrði lausafé Strætó á þrotum innan fárra vikna

Blikur eru á lofti í rekstri Strætó út af faraldrinum. Elstu vagnarnir sem enn eru í notkun voru keyptir árið 2000 og meðalaldur vagna er hærri en talið er æskilegt. Samkvæmt nýlegri fjármálagreiningu frá KPMG verður ekki hægt að endurnýja vagnaflotann nema með stórauknu framlagi eigenda og bent er á að ef til vill væri hentugra að útvista enn meiri akstri til verktaka. Kjarninn skoðar stöðu Strætó.

Horfur eru á því að hand­bært fé Strætó bs. verði uppurið á fyrstu mán­uðum árs­ins, en Strætó gerir ráð fyrir að taka 400 millj­ónir króna að láni í vor til þess að fleyta sér í gegnum árið. Lítið má út af bregða til þess að félagið geti ekki sinnt samn­ings­bund­inni þjón­ustu sinni við ríki og sveit­ar­fé­lög.

Þetta er á meðal nið­ur­staðna í fjár­mála­grein­ingu sem Strætó bs. fékk ráð­gjaf­ar­svið KPMG til þess að vinna fyrir sig vegna þeirra stöðu sem byggða­sam­lagið er komið í sökum COVID-19 far­ald­urs­ins, en far­þega­tekjur hafa hrunið í far­aldr­inum og voru um 800 millj­ónum lægri en áætlun fyrir árið 2020 gerði ráð fyr­ir. Rekstr­ar­tap Strætó nam yfir hálfum millj­arði vegna þessa.

Jóhannes Svavar Rún­ars­son fram­kvæmda­stjóri Strætó fékk í lok síð­asta árs heim­ild hjá stjórn til þess að taka allt að 300 milljón króna yfir­drátt­ar­heim­ild til þess að mæta lausa­fjár­stöðu fyr­ir­tæk­is­ins til skamms tíma. Hann segir við Kjarn­ann að umræður um hvernig skuli takast á við fjár­hags­stöð­una fari þessa dag­ana fram á meðal eig­enda Strætó, sveit­ar­fé­lag­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

Auglýsing

Fjár­mála­grein­ing KPMG er dag­sett 25. jan­úar og var kynnt fyrir stjórn Strætó á síð­asta fundi henn­ar, 29. jan­ú­ar. Hún hefur ekki verið gerð opin­ber, en Kjarn­inn fékk skjalið afhent frá Strætó.

Far­gjalda­tekjur í ár verði um 80 pró­sent af tekjum árs­ins 2019

Sam­kvæmt áætl­unum sem þar eru til umfjöll­unar er ekki gert ráð fyrir því að far­þega­tekjur nái sömu hæðum og árið 2019 fyrr en á næsta ári. Í ár er gert ráð fyrir því að þær verði um 80 pró­sent af far­þega­tekjum árs­ins 2019. Veru­leg óvissa þykir um þró­un­ina næstu miss­eri og það hversu lengi áhrifa COVID-far­ald­urs­ins kemur til með að gæta.

Áætluð sjóðstaða Strætó bs. með og án lántöku á vormánuðum.
KPMG

Sam­kvæmt grein­ingu KPMG er mik­il­vægt að Strætó hafi aðgengi að um 300 millj­ónum króna í hand­bæru fé á hverjum tíma til þess að mæta stærstu útgjalda­liðum innan mán­að­ar.

Ef ekki yrði tekið 400 milljón króna lán núna á næstu mán­uðum yrði sjóð­staðan hins vegar komin við núllið í mars og orðin nei­kvæð í apr­íl. Með lán­töku í apríl er hins vegar gert ráð fyrir að sjóð­staðan verði jákvæð allt árið og standi í um 250 millj­ónum króna undir lok árs.

Lítil fjár­fest­inga­geta og flot­inn gam­all

Í grein­ingu KPMG segir að ald­urs­sam­setn­ing stræt­is­vagna­flota Strætó kalli ýmist á miklar fjár­fest­ingar á næstu árum eða aukna útvistun akst­urs til einka­að­ila, en þegar í dag er um helm­ingur af öllum akstri Strætó í höndum verk­taka. 

Mikil upp­söfnuð end­ur­nýj­un­ar­þörf er til stað­ar, en Strætó á tvo vagna sem voru keyptir inn á alda­móta­ár­inu 2000. Þeir eru ekki not­aðir mik­ið, að sögn fram­kvæmda­stjór­ans. Alls 28 vagnar af alls 88 í flot­anum voru keyptir inn fyrir árið 2010 og með­al­aldur þeirra er um 16 ár.

Arnar Þór

Heilt yfir er með­al­aldur vagn­anna um 9 ár, en Strætó telur eðli­legt við­mið til lengri tíma að not­ast ekki við vagna í meira en 10 ár og að með­al­aldur flot­ans á hverjum tíma­punkti sé um 5 ár. Ekki hefur verið keyptur nýr vagn síðan árið 2019 og engin vagna­kaup á áætlun í ár.

Það er vont að nota gamla stræt­is­vagna, því þá þarf að vera auk­inn fjöldi vara­vagna til staðar vegna tíðra bil­ana. Í dag eru 26 vara­vagnar í flota Strætó eða um það bil 30 pró­sent af heild­ar­flot­an­um. Strætó telur eðli­legt að þetta hlut­fall ætti að vera nær 12-15 pró­sent­um. Til þess að svo geti verið þarf flot­inn hins vegar að vera yngri.

Nýir vagnar eru dýrir og KPMG teiknar upp mynd sem sýnir að fjár­fest­inga­geta Strætó er afar tak­mörk­uð. Sam­kvæmt grein­ingu þeirra hefur Strætó miðað við óbreyttar rekstr­ar­horfur ekki burði til að fara í þær fjár­fest­ingar sem þarf til að yngja upp flot­ann nema að „til kæmu veru­leg fram­lög frá sveit­ar­fé­lögum eða hinu opin­ber­a.“

KPMG

Áætlað er að sveit­ar­fé­lögin sem eiga Strætó muni leggja fyr­ir­tæk­inu til um 4,33 millj­arða króna á þessu ári og til við­bótar er gert ráð fyrir 900 millj­óna króna fram­lagi úr rík­is­sjóði. Áætlað er að far­þega­tekjur nemi 1,67 millj­örðum á þessu ári og auk þess er áætlað að Strætó fái rösk­lega 1,6 millj­arða króna í tekjur fyrir að sinna akst­urs­þjón­ustu fatl­aðra.

KPMG gefur sér að hver nýr stræt­is­vagn kosti 63 millj­ónir króna. Því myndi kosta 880 millj­ónir að end­ur­nýja þá 28 vagna sem eru eldri en 10 ára og svo myndi kosta um 1,5 millj­arða til við­bótar að end­ur­nýja þá 33 vagna sem keyptir voru á árunum 2013 og 2014. Þá var ráð­ist í umfangs­mikla end­ur­nýjun flot­ans í kjöl­far þess að ein­ungis einn stræt­is­vagn var keyptur frá 2008-2012 í kjöl­far hruns.

Ekki er útlit fyrir að Strætó hafi efni á því að ráð­ast í annað slíkt átak að óbreyttu. KPMG telur á að ávinn­ingur gæti falist í að útvista akstri í auknum mæli, meðal ann­ars þar sem „kom­ist yrði hjá veru­legri fjár­bind­ingu í nýjum vögn­um.“ Ráð­gjafar KPMG telja þörf á að móta skýra stefnu um þetta og setja á fót aðgerða­á­ætlun til þess að fylgja þeirri stefnu eft­ir. 

Tíma­frekt að bjóða út akstur

Jóhannes Svavar fram­kvæmda­stjóri segir við Kjarn­ann að þær ábend­ingar sem KPMG kom með séu til skoð­un­ar, en bendir á að það sé „tíma­frekur pró­sess“ að bjóða akst­ur­inn út til verk­taka og það sé ekki eitt­hvað sem leysin málin til skemmri tíma.

Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó.
Strætó

Hann segir enn fremur að póli­tísk stefnu­mörkun eig­end­anna ráði för hvað þetta varð­ar, en bendir um leið á að í flestum öðrum nor­rænum höf­uð­borgum sé allur akst­ur­inn í stræt­is­vagna­kerf­inu aðkeypt­ur.

Unnið út frá því að Borg­ar­lína og Strætó verði eitt fyr­ir­tæki

Á næstu árum mun Borg­ar­lína tvinn­ast inn í almenn­ings­sam­göng­urnar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og taka yfir stofn­leiðir Strætó, eina af annarri. Blaða­maður spurði Jóhannes hvort ein­hver ákvörðun hefði verið tekin um að fresta því að end­ur­nýja vagna­flota Strætó þar til Borg­ar­línan komi inn í kerf­ið, en svo segir hann ekki vera.

Ráð­gert er að vagnar Borg­ar­línu verði á bil­inu 18-24 metra lang­ir. Þá vagna mun þurfa að kaupa og svo reka, en ekki er búið að ákveða hvernig því eða rekstr­inum á almenn­ings­sam­göngum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins verður nákvæm­lega háttað til fram­tíð­ar. Jóhannes segir þá umræðu í gangi núna, það sé svona næsta verk­efni á eftir útgáfu frum­draga­skýrsl­unnar að fyrstu lotu Borg­ar­línu, að fara að leggj­ast yfir það.

Hann segir að innan Strætó sé gengið út frá því að um eitt fyr­ir­tæki verði að ræða. Hvort rekstr­ar­ein­ingin muni svo heita Borg­ar­lína, Strætó eða eitt­hvað annað verði að ákveða á póli­tískum vett­vangi eig­end­anna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent