Fjöldi evrópskra kaupenda á jarðgasi frá Rússlandi hafa ákveðið að verða við afarkostum frá ríkisstjórn landsins og munu greiða fyrir gasið sitt í rúblum í kjölfar þess að Rússar lokuðu á gasútflutning til Póllands og Búlgaríu þar sem þessum kröfum var ekki mætt. Þetta kemur fram í frétt frá Financial Times sem birtist í morgun.
Samkvæmt fréttinni eru tveir stærstu jarðgaskaupendur í Evrópu – þýska orkufyrirtækið Uniper og austurríska iðnfyrirtækið OMV – á meðal þeirra sem ætla að opna sérstaka bankareikninga í rúblum til að geta greitt fyrir gasinnflutninginn sinn frá Rússlandi. Fyrirtækin segja að mikill hiti hafi verið í samningaviðræðum á síðustu dögum, þar sem stutt hafi verið í gjalddaga.
Fyrir tveimur dögum síðan tilkynnti ríkisstjórn Rússlands að ekkert jarðgas myndi flæða til Búlgaríu og Póllands, þar sem orkudreifingarfyrirtæki landanna neituðu að verða við þessum kröfum. Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, gagnrýndi ákvörðunina og sagði hana vera óréttlætanlega og óásættanlega í opinberri tilkynningu í gærmorgun. Forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, sagði svo ákvörðunina vera „beina árás“ á landið.
Mögulega gegn viðskiptaþvingunum
Tilgangur ákvörðunar Vladimír Pútíns, Rússlandsforseta, um að krefjast greiðslna í rúblum er margþættur, samkvæmt umfjöllun Fortune. Annars vegar væri hann þjóðhagslegur, þar sem hægt yrði að styrkja gengi þjóðargjaldmiðils Rússa ef fleiri aðilar eiga í viðskiptum með hann. Líkt og Kjarninn greindi frá hrundi virði rúblunnar á fyrstu dögum innrásar Rússlands í Úkraínu, en hefur náð aftur fyrri styrk síðan þá vegna gjaldeyrishafta og mikilla vaxtahækkana í landinu.
Hins vegar segir Fortune að tilgangurinn sé einnig pólitískur, þar sem ákvörðunin myndi neyða evrópsk fyrirtæki til að ganga að hans kröfum. Slík eftirgjöf gæti reynst fyrirtækjunum erfið, þar sem víðtækar viðskiptaþvinganir á milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Rússlands frá upphafi innrásarinnar.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur áður lýst því yfir að greiðsla á rússnesku jarðgasi í rúblum gæti gengið gegn gildandi viðskiptaþvingunum sambandsríkjanna við Rússland. Ríkisstjórnir í Þýskalandi og Hollandi hafa hvatt fyrirtæki í löndunum til að verða ekki við þessum kröfum, en ítalska ríkisstjórnin hefur ekki enn gefið upp hvort hún ætli að gera það eða ekki. Samkvæmt frétt FT þarf ítalska orkufyrirtækið ENI, sem er að meirihluta í almannaeigu, að taka ákvörðun um málið fyrir lok maímánaðar.
Samkvæmt umfjöllun Guardian um málið gætu evrópsk fyrirtæki sem hafa ákveðið að setja upp bankareikninga í rússneskum bönkum til að verða við kröfum Rússa mögulega komist hjá því að ganga gegn gildandi viðskiptaþvingunum. Slík undankomuleið byggi á því hvort evrum sé skipt yfir í rúblur fyrir eða eftir að kaup á jarðgasinu hafi verið samþykkt.