Ef Júdas hefði lagt silfurpeningana sína þrjátíu inn á bankareikning með 3% ársvöxtum þá ættu afkomendur hans meira en sem nemur öllu silfri sem til er í heiminum. Upphæðin tvöfaldast á 22 ára fresti og hefur því tvöfaldast 90 sinnum. Silfurpeningarnir þrjátíu, sem Júdas fékk þegar hann framseldi Jesú til rómverskra yfirvalda, væru þá í dag orðnir 1.416.841.637.924.760.000.000.000.000 silfurpeningar!
Hefði Júdas lagt silfurpeningana 30 inn á bankabók, þá ættu afkomendur hans í dag 1.416.841.637.924.760.000.000.000.000 silfurpeninga.
Þetta kom fram í fjórða þætti af Ferð til fjár á RÚV. Þeir Helgi Seljan og Breki Karlsson, umsjónarmenn þáttanna, fjölluðu sérstaklega um vexti og tímavirði peninga í þættinum. Þeir fengu meðal annars Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur til þess að útskýra hvernig vextir virka og sagði hún þá í raun vera leigu á peningum. „Ef við tökum bíl á bílaleigu þá borgum við fyrir hann leigu. Það er ekki þannig að við getum sagt: Ég fæ bílinn og skila honum til baka eins og ég fékk hann. Við borgum fyrir afnotin. Sama gildir með fjármuni. Ef einstaklingur fær lán þá borgar hann leigu fyrir að nota þessa peninga. En við köllum það ekki leigu heldur vexti,“ sagði hún.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 12. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.