Ríkissjóður hefði getað þurft að greiða allt að hundrað milljarða króna aukalega árið 2019 ef ellilífeyrisgreiðslur voru ekki tekjutengdar. Þetta eru niðurstöður Benedikts Jóhannessonar, stærðfræðings, fyrrum fjármálaráðherra og stofnanda Viðreisnar, í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Í betri stöðu en flestar vestrænar þjóðir
Í grein Benedikts, sem byggir á skýrslu Talnakönnunar fyrir Birtu lífeyrissjóð um stöðu og framtíð lífeyriskerfisins, kemur fram að hlutfall lífeyrisgreiðslna frá Tryggingarstofnun ríkisins (TR) af landsframleiðslu hafi aukist um helming frá árinu 2008. Á sama tíma hafi lífeyrisréttindi þeirra sem eru að fara á eftirlaun batnað jafnt og þétt.
Benedikt segir þó að hlutfallið lækki á næstu árum og áratugum ef reglur um lífeyrisgreiðslur haldist óbreyttar, þar sem lífeyrissparnaður eykst. „Gangi þetta eftir mun því ekki bara hagur aldraðra batna á komandi áratugum heldur mun líka draga úr útgjöldum ríkisins til þessa málaflokks,” bætir hann við.
Þessi niðurstaða bendir til þess að Íslendingar séu í mun betri stöðu en flestar vestrænar þjóðir, að mati Benedikts. Hann segir þó að það myndi hafa mjög mikil áhrif ef hætt yrði að tekjutengja lífeyri frá almannatryggingum.
Allt að tvöfalt meiri greiðslubyrði
Samkvæmt honum voru heildarlífeyrisgreiðslur frá TR vegna ellilífeyris um 80 milljarðar króna árið 2019. Ef miðað væri við að allir fengju hæstu greiðslur, sem þá voru um 3,8 milljónir króna á ári fyrir einstæðinga og 3,2 milljónir króna á ári fyrir sambúðarfólk, myndi sú upphæð nema 160 milljörðum króna. Fengju allir hærri fjárhæðina hefðu greiðslurnar orðið 180 milljarðar króna.
Benedikt segir að gjarnan sé vitnað í erlend lífeyriskerfi þegar rætt er um það hvort lífeyrisgreiðslur eigi að koma fyrst og fremst frá Tryggingastofnun eða frá lífeyrissjóðum. Samkvæmt honum eru lífeyriskerfi þó margvísleg eftir löndum og ekki auðvelt að bera þau saman nema að horft sé á þau heildstætt, þar sem tekið er tillit til samspils við skattkerfið.
„Skylt er að geta þess að sumir tala um að breyta lífeyrinum aftur í fyrra horf, þar sem allir fá fasta krónutölu, til dæmis 50 þúsund krónur,” segir Benedikt. “Slík ráðstöfun myndi annað hvort skerða lífeyri þeirra sem minnstar tekjur hafa, ef heildarútgjöld til málaflokksins yrðu óbreytt, eða auka útgjöld ríkisins og skattbyrði landsmanna.”
Hægt er að lesa grein Benedikts í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.