Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að tekið yrði á móti 35-70 manns frá Afganistan, til viðbótar við þann hóp flóttamanna sem hefur þegar komið þaðan á undanförnum mánuðum, vegna ástandsins sem ríkir í landinu eftir valdatöku talíbana.
„Lífsskilyrði þar hafa farið ört versnandi undanfarna mánuði og telur ríkisstjórnin brýnt að bregðast frekar við því. Flóttamannanefnd hefur verið falið að útfæra tillögu ríkisstjórnarinnar en horft verður sérstaklega til einstæðra kvenna í viðkvæmri stöðu sem hafa náin tengsl við Ísland og barna þeirra. Erfitt er að meta nákvæman fjölda sem tekið verður á móti þar sem hann fer eftir fjölskyldusamsetningu,“ segir í sameiginlegri tilkynningu fjögurra ráðuneyta um þetta í dag.
Í tilkynningunni segir að 78 manns hafi komið til landsins frá Afganistan síðasta haust, en ríkisstjórnin boðaði skömmu eftir valdatöku talíbana að tekið yrði á móti tilgreindum hópi Afgana sem hefði tengsl við Ísland, alls um 90-120 manns. Um fjörutíu manns til viðbótar sem fengu boð um skjól á Íslandi þáðu boð um skjól í öðru ríki.
Að tillögu flóttamannanefndar var í haust lögð áhersla á að bjóða velkomna einstaklinga sem unnu með eða fyrir Atlantshafsbandalagið, fyrrverandi nemendur við Alþjóðlega jafnréttisskólann á Íslandi (GRÓ-GEST) og einstaklinga sem áttu rétt á fjölskyldusameiningu eða voru þegar komnir með samþykkta umsókn um dvalarleyfi.
Síðasti hópur flóttamanna frá Afganistan kom hingað til lands skömmu fyrir jól. Ekki liggur fyrir hvenær þess megi vænta að tekið verði á móti þeim hópi sem stjórnvöld hafa nú tilkynnt að tekið verði á móti.
Milljónir líða hungur
Staða mála í Afganistan er orðin mjög þung, frá valdatöku talíbana, en með henni fjaraði stuðningur vestrænna ríkja við ríkisstjórn landsins út, með hörmulegum afleiðingum fyrir efnahag landsins og grunnþjónustu afganska ríkisins.
Hungursneyð er í landinu, en mat stofnana Sameinuðu þjóðanna er að um helmingur íbúa landsins líði alvarlegt hungur. Þar af er talið að um ein milljón barna standi frammi fyrir alvarlegri vannæringu. Sameinuðu þjóðirnar sendu á dögunum út neyðarboð um hjálp til handa íbúum landsins.