Samkvæmt nýrri könnun um ferðavenjur meðal fólks á höfuðborgarsvæðinu eru sem fyrr langflestir sem ferðast oftast með einkabíl til og frá vinnu, en stór hluti þeirra sem oftast aka væri þó eftir sem áður frekar til í að ferða til vinnu með einhverjum öðrum hætti, sér í lagi fótgangandi eða hjólandi.
Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að 74,7 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu fara oftast á einkabíl í vinnuna, fjórum prósentum til viðbótar er oftast skutlað í vinnuna, 6,6 prósent fara á hjóli, 8,2 prósent ganga og fjögur prósent segjast oftast fara með strætó.
Hlutfall þeirra sem sögðust oftast aka í vinnuna stígur á milli á ára, en í júní í fyrra mældist það 63,3 prósent sem var umtalsverð lækkun frá því í ágúst 2019, þegar 71,6 prósent svarenda sögðust oftast keyra á sínum einkabíl til vinnu.
Hlutfall þeirra sem sögðust helst vilja keyra í vinnuna nam svo 46,3 prósentum, sem er einnig aukning frá fyrra ári og raunar töluverð, en í könnun sem gerð var í júní í fyrra nam hlutfallið einungis 35,3 prósentum. 18 prósent segjast nú helst vilja ganga til vinnu, 17,8 prósent segjast helst vilja hjóla, 8,8 prósent segjast helst vilja taka strætó og 3,1 prósent segjast helst vilja fara á rafhlaupahjóli.
Meirihlutinn segir borgina þurfa að hlusta á bílstjóra sem kjósi aðra ferðamáta
Skoðanakönnunin, sem framkvæmd var af Maskínu í júnímánuði var kynnt á fundi í skipulags- og samgönguráði borgarinnar í gær og óhætt er að segja að niðurstöðurnar hafi verið túlkaðar á ýmsan máta, samkvæmt bókunum kjörinna fulltrúa á fundinum.
Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata, sem mynda meirihluta borgarstjórnar, sögðu að líkt og undanfarin ár væru „miklu fleiri sem ferðast með bíl heldur en þau sem vilja helst ferðast með bíl“ og bentu á að ríflega helmingur aðspurðra myndi velja það sem fyrsta kost að ferðast með öðrum hætti en bíl til og frá vinnu.
„Heil 40% þeirra sem fara oftast til vinnu með bíl myndu helst vilja nýta annan fararmáta. Það eru mikilvæg skilaboð sem borgin þarf að hlusta á,“ sögðu fulltrúar meirihlutans, þau Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson og Sara Björg Sigurðardóttir.
Framsetning niðurstaðnanna frá Maskínu og túlkun meirihlutans á þeim féll sumum borgarfulltrúum þó ekki vel að skapi, en í plagginu sem kynnt var á fundinum voru niðurstöðurnar settar fram með þeim hætti að úr þeim mátti lesa fyrsta, annað og þriðja val þátttakenda í könnunninni hvað varðar ferðamáta, sem ætla má að sé hugsað til þess að endurspegla það að margir fari t.d. stundum á hjóli til og frá vinnu þrátt fyrir að fara ef til vill oftast á bíl.
Vigdís, útúrsnúningar og vitleysisgangur
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins og áheyrnarfulltrúi í ráðinu lét gagnbóka að meirihlutinn væri með „útúrsnúninga og vitleysisgang“ og lagði áherslu á að tæp 80 prósent Reykvíkinga notuðu „fjölskyldubílinn“ til að komast til og frá vinnu.
„Að pína fólk í könnun til að svara því í öðru og þriðja lagi hvernig það vilji ferðast ef fjölskyldubíllinn væri ekki til staðar skekkja staðreyndir í kollum meirihlutans og nota þau þær afleiddu upplýsingar til að draga úr vægi fjölskyldubílsins,“ bókaði borgarfulltrúinn og sagði svo í annarri bókun að fólk einfaldlega verði að „sinna daglegu lífi á bílum“.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í ráðinu sögðu það vekja athygli að hlutdeild einkabílsins færi vaxandi á milli ára og vöktu athygli á því að hlutfall ferða með strætó hefði ekki verið lægra í fjögur ár, samkvæmt mælingu Maskínu, á meðan að hlutfall hjólreiða væri hátt og rafmagnshlaupahjól væru að koma sterk inn, en spurt var um þau sérstaklega í fyrsta sinn í þessari könnun Maskínu.
„Bættir samgönguinnviðir auka frelsi fólks til að velja sér fararmáta og er mikilvægt að farið verði í víðtækar úrbætur í samgöngum fyrir alla í Reykjavík,“ sagði í bókun fulltrúa flokksins, sem eru þau Eyþór Arnalds, Marta Guðjónsdóttir og Katrín Atladóttir.
Kolbrún Baldursdóttir áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í ráðinu bókaði svo að könnunin sýndi að fleiri en 80 prósent Íslendinga ferðuðust á bíl í vinnu.. „Hjól sem samgöngutæki eru greinilega ekki eins vinsæl og halda mætti,“ bókaði Kolbrún, sem segir ekki að sjá að „ferðabreytingar séu í aðsigi“.
Könnunin sem um ræðir var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram á netinu dagana 3. til 30. júní 2021 og voru svarendur 1.571 talsins úr röðum vinnandi fólks af öllu höfuðborgarsvæðinu og á aldrinum 18 ára og eldri.