Enn er óljóst hvernig á því stendur að starfsmenn Isavia á Keflavíkurflugvelli lýstu með bílljósum á fréttatökuteymi Ríkisútvarpsins í upphafi mánaðarins og hver ber á því ábyrgð.
Kjarninn óskaði í síðustu viku eftir því að fá skýr svör frá Isavia um hvernig á því stæði að þetta hefði átt sér stað, og hver bæri á því ábyrgð.
Í svari sem barst Kjarnanum í gær segist Isavia vísa öllum fyrirspurnum um þetta tiltekna mál til embættis ríkislögreglustjóra, um hafi verið að ræða lögregluaðgerð sem embættið beri ábyrgð á og það hafi farið með alla stjórn aðgerða á vettvangi.
Fyrirspurn Kjarnans var sett fram í því skyni að reyna að upplýsa lesendur miðilsins, í eitt skipti fyrir öll, um það hver bar ábyrgð á því að fréttamenn voru flóðlýstir af starfsmönnum Isavia og þannig gert ókleift að mynda það sem þau vildu myndu innan flugvallargirðingarinnar.
Isavia sagði starfsmenn hafa fengið fyrirmæli frá lögreglu
Kjarninn sagði, í frétt sem birtist 3. nóvember, frá yfirlýsingu Isavia vegna málsins. Þar kom fram að lögregla hefði farið fram á það við starfsmenn öryggisgæslu Isavia að komið yrði í veg fyrir myndatökur af lögregluaðgerðinni á Keflavíkurflugvelli, þegar stoðdeild ríkislögreglustjóra flutti 15 umsækjendur um alþjóðlega vernd til Grikklands með leiguflugi.
„Að mati Isavia er það ekki hlutverk öryggisgæslu flugvallarins að hindra störf fjölmiðla. Isavia harmar að það hafi gerst í nótt og biðst afsökunar á því. Isavia mun fara yfir þessa framkvæmd með lögreglu,“ sagði í yfirlýsingunni frá Isavia.
Lögregla sagðist ekki hafa gefið fyrirmæli um að byrgja fréttateymi sýn
Lögreglan og Isavia áttu svo fund á miðvikudaginn í síðustu viku, 9. nóvember. Í kjölfar þess fundar var send út yfirlýsing, þar sem sagði frá því að við yfirferð á framkvæmd aðgerðarinnar hefði komið í ljós að tilmæli voru ekki nægilega skýr, og að verklag í aðgerðum sem þessum yrði tekið til gagngerrar endurskoðunar til að koma í veg fyrir „óskýrleika á vettvangi“. Aldrei hefði verið „ætlun aðila að hindra störf fjölmiðla með nokkrum hætti“.
Í kjölfar þess að tilkynningin var send út sendi embætti ríkislögreglustjóra svo frá sér viðbótartilkynningu, sem í sagði: „Það áréttist að lögregla gaf ekki fyrirmæli um að hindra fréttaflutning á fylgdum“.
Blaðamannafélagið telur frekari skýringa þörf
Í svari Isavia til Kjarnans, sem raunar er samhljóða bréfi sem ríkisfyrirtækið sendi á Blaðamannafélag Íslands, segir meðal annars að í vinnu Isavia og lögreglu verði áhersla lögð á „skýrt hlutverk starfsfólks Isavia þannig að aldrei verði nokkur vafi um fyrirmæli lögreglu“.
„Isavia hefur þegar harmað þau mistök sem gerð voru og beðist afsökunar á þeim. Við erum nú sem fyrr reiðubúin til að eiga gott samstarf við fjölmiðla þegar óskað er eftir að sinna störfum á Keflavíkurflugvelli,“ segir einnig í svarinu.
Í umfjöllun á vef Blaðamannafélagsins segir að Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður félagsins muni kalla eftir fundi með Sveinbirni Indriðasyni forstjóra Isavia til þess að ræða málið frekar.
„Að mati BÍ þarfnast þetta frekari skýringa af hálfu bæði Isavia og embættis ríkislögreglustjóra,“ segir á vef Blaðamannafélagsins.
Nýjasta svar Isavia til Kjarnans í heild sinni
Isavia vísar öllum fyrirspurnum um þetta tiltekna mál til embættis ríkislögreglustjóra enda var um að ræða lögregluaðgerð sem embættið ber ábyrgð á og fór með alla stjórn aðgerða á vettvangi.
Þegar rútan kom á Keflavíkurflugvöll með lögreglufylgd var óskað eftir aðstoð starfsmanna Isavia við að koma rútunni í skjól. Orðið var við beiðninni á vettvangi og var lögregla á öllum stundum upplýst um gang mála.
Starfsfólk Isavia hefur síðan farið yfir atburðarás málsins og átti fund með fulltrúum embættis ríkislögreglustjóra. Á þeim fundi var farið yfir samskipti lögreglu og starfsfólks Isavia. Ákveðið var að setja í gang sameiginlega vinnu beggja aðila þar sem ferli og verklag í aðgerðum af þessu tagi er tekið til endurskoðunar. Áhersla verður þar lögð á skýrt hlutverk starfsfólks Isavia þannig að aldrei verði nokkur vafi um fyrirmæli lögreglu.
Isavia hefur þegar harmað þau mistök sem gerð voru og beðist afsökunar á þeim. Við erum nú sem fyrr reiðubúin til að eiga gott samstarf við fjölmiðla þegar óskað er eftir að sinna störfum á Keflavíkurflugvelli.