Kærunefnd útlendingamála féllst síðastliðinn föstudag á endurupptöku máls hins nígeríska Uhunoma Osayomore, en staðfesti eftir sem áður eldri ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Þetta segir lögmaður hans, Magnús D. Norðdahl, í samtali við Kjarnann.
Magnús segir að afstaða yfirvalda í málinu sé óbreytt, en sömuleiðis að málinu sé ekki lokið, þar sem krafist verði ógildingar á úrskurði kærunefndar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Lögmaðurinn segist telja úrskurðinn rangan og bætir við að það muni reyna á efnisatriði þessarar nýju niðurstöðu kærunefndarinnar þegar málið fari fyrir héraðsdóm.
Kærunefnd útlendingamála afgreiddi að sögn Magnúsar tvær endurupptökubeiðnir sem sendar höfðu verið inn fyrir hönd Uhunoma með niðurstöðu sinni á föstudag. Úrskurður kærunefndarinnar frá því á föstudag hefur ekki verið birtur opinberlega og Magnús segist ekki geta afhent hann.
Yfir 45 þúsund undirskriftir afhentar í febrúar
Mál Uhunoma hefur verið töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna mánuði. Yfirvofandi brottvísun hans af landi brott var mótmælt í febrúarmánuði, meðal annars á samstöðufundi sem haldinn var á Arnarhóli 9. febrúar. Á sama tíma var undirskriftum safnað til stuðnings þess að íslensk stjórnvöld leyfðu Uhunoma að vera hér á landi til frambúðar.
Þann 16. febrúar voru Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra afhentar alls 45.744 undirskriftir sem söfnuðust við þann málstað að íslensk stjórnvöld veittu Uhunoma alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Það er tíunda stærsta undirskriftasöfnun Íslandssögunnar, samkvæmt samantekt sem finna má á Wikipedia.
We just handed 45,744 signatures in support of Uhunoma Osayomore to Icelandic Prime Minister Katrín Jakobsdóttir @katrinjak (being interviewed in the background). Hopefully it will help him to get to stay in Iceland. #björgumuhunoma #saveuhunoma pic.twitter.com/7oiY2rQiQQ
— Hallgrímur Helgason (@HalgrimHelgason) February 16, 2021
Á vef þar sem undirskriftasöfnunin fór fram var saga Uhunoma sett fram: „Uhunoma er 21 árs og er frá Nígeríu. Árið 2016, þegar hann var aðeins 16 ára, flúði hann frá heimili sínu í Nígeríu eftir að faðir hans myrti móður hans og yngri systir lést af slysförum.
Hann fór til Lagos, höfuðborgar landsins, og lenti þar í höndum þrælasala sem seldu hann mansali og upphófst þar með hræðilegt ferðalag sem leiddi hann til Íslands í október 2019. Á leiðinni upplifði hann hryllilega hluti, varð vitni að morðum, var haldið föngnum í fjárhúsi og varð ítrekað fyrir kynferðislegu ofbeldi. Í þrjú ár bjó hann í flóttamannaíbúðum á Ítalíu.
Hann hóf ferðalagið sem barn en endaði á Íslandi sem einstæður fullorðinn maður,“ sagði á vef undirskriftasöfnunarinnar.
Lögmaðurinn Magnús hefur sagt að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi ranglega talið að Uhonoma sé öruggur í heimaríkinu Nígeríu. Það mat sé ekki síst rangt í ljósi þess að hann glími við alvarleg andleg veikindi. Þá sé mat íslenskra stjórnvalda á aðstæðum mansalsfórnarlamba í Nígeríu bæði óforsvaranlegt og rangt.