Agnieszka Ewa Ziółkowska, sem verið hefur starfandi formaður Eflingar frá því að Sólveig Anna Jónsdóttir lét af embætti formanns í lok októbermánaðar, gagnrýnir Sólveigu Önnu harðlega í grein sem birtist á Vísi í dag á þremur tungumálum.
Hún segir segir að það hafi þurft að hrista upp í verkalýðshreyfingunni, það hafi Sólveig Anna gert og fyrir það sé hún þakklát. „Sólveig Anna er hins vegar ekki rétta manneskjan til að leiða baráttuna áfram og hefur sýnt það með óbilgirni og vangetu til að hlusta á raddir annarra en sína eigin,“ segir í grein Agnieszku.
Hún hvetur fólk til þess að lýsa yfir stuðningi við A-lista Eflingar, sem Ólöf Helga Adolfsdóttir leiðir í formanns- og stjórnarkjöri stéttarfélagsins, sem hefst á morgun.
Sólveig sjálf sé „orðin málsvari sundrungar“
Agnieszka segir í grein sinni að það sé baráttuhugur til staðar í hreyfingunni, en að Sólveig sjálf sé „orðin málsvari sundrungar“ og að með hana sem formann að nýju muni Efling einangrast.
„Reyna mun á styrk verkalýðshreyfingarinnar í náinni framtíð til að takast á við þau mikilvægu og stóru verkefni sem eru framundan. Sundrung verkalýðsforystunnar eins og stefnir í ef Sólveig verður í forystu Eflingar, mun veikja stöðu félagsmanna okkar og alls verkafólks á landinu og með henni mun Efling einangrast. Verkefni verkalýðsforystunnar framundan eru of mikilvæg til að við getum við með sundraða verkalýðshreyfingu og formann sem ekki hlustar á gagnrýni,“ segir í grein Agnieszku.
Sólveig Anna sagði starfsfólk annarra ASÍ-félaga ætla að álykta gegn sér
Sólveig Anna birti langa færslu á Facebook í gærkvöldi, sem hún lýsti því meðal annars að í kosningunum í Eflingu árið 2018 þar sem hún og B-listi hennar hafði betur, hefði henni borist til eyrna að starfsfólk Eflingar væri „með grófum hætti að stunda áróður á kjörstað.“ Í færslu hennar segir að henni hafi svo fljótlega eftir að hún hóf störf sem formaður Eflingar hafa áttað sig á því að á skrifstofu Eflingar væru „manneskjur sem af ýmsum ástæðum ætluðu sér aldrei að vinna með mér, ætluðu sér aldrei að sýna mér virðingu, hvorki persónulega eða vegna stöðu minnar sem formanns Eflingar.“
Hún segir þennan hóp fólks hafa leikið þann leik í aðdraganda fyrsta ASÍ þingsins sem Sólveig og félagar hennar hafi mætt á að „senda rógs-bréf á um það bil 40 manna hóp valdafólks innan ASÍ til að mála upp þá mynd af mér að ég væri einhverskonar glæpakona“ og að þetta hafi svo aftur verið gert í aðdraganda þings Starfsgreinasambandsins.
Í færslu sinni sagði hún svo frá því að ástæðan fyrir því að hún væri að rifja þetta upp væri sú að hún hefði heyrt af því að í dag ætti að „halda sérstakan fund starfsfólks þeirra félaga sem eiga aðild að ASÍ“ og að tilgangur fundarins væri að „samþykkja og senda frá sér ályktun til stuðnings starfsfólki skrifstofu Eflingar, og gegn mér og framboði Baráttulistans til stjórnar félagsins.“
„Nú get ég auðvitað ekki fullyrt að þau sem undirbúa að senda ályktun frá stórum hópi starfsfólks félaga innan ASÍ skilji hversu gróflega þau eru með þessu að blanda sér í lýðræðislegar kosningar Eflingarfólks um það hver stýrir félaginu. En ég held að þau geri það. Ég held að til þess sé leikurinn gerður. Til að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að ég og félagar mínir á Baráttulistanum getum sigrað.
Atvinnurekendur vilja ekki deila völdum með vinnuaflinu. Valdastéttin vill ekki deila völdum með vinnuaflinu. Og staðreyndin, sú sem verður æ augljósari, er að þau sem telja sig réttmæta eigendur verkalýðsfélaganna okkar, þau sem vinna innan skrifstofuvirkisins, þau vilja það ekki heldur. Þeim finnst það einfaldlega fráleitt. Þau eiga hreyfinguna, þau eiga ASÍ og þau ætla að ráða. Þau sjá einfaldlega ekkert athugavert við reyna að hafa áhrif á það hver stýrir Eflingu. Þeim finnst ekki nóg komið af ofstækisfullum árásum og nafnlausum rógburði. Nei, það verður að halda áfram að kynda bálið,“ segir sömuleiðis, í færslu Sólveigar Önnu.
Árið 2018 voru í fyrsta skipti í næstum tveggja áratuga sögu verkalýðsfélagsins Eflingar haldnar kosningar. Ég og...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Monday, February 7, 2022