Kjörinn varaformaður Eflingar, Agnieszka Ewa Ziólkowska, tók við embætti formanns stéttarfélagsins á stjórnarfundi í dag. Á sama fundi var afsögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur úr embætti formanns Eflingar afgreidd.
Ólöf Helga Adolfsdóttir, sem hefur verið mikið í fjölmiðlum undanfarið eftir að henni var sagt upp störfum sem hlaðmanni hjá Icelandair, tekur við sem varaformaður Eflingar. Næstu formanns- og stjórnarkosningar munu fara fram fyrir lok mars á næsta ári.
Í tilkynningu frá stjórn Eflingar segir að stjórn félagsins leggi áherslu á að tryggja órofa starfsemi félagins. „Félagsins bíður það mikla verkefni undirbúa næstu kjarasamningsviðræður en samningar eru lausir í lok næsta árs. Í þessu verkefni mun Efling áfram vera sterkur málsvari verkafólks. Stjórn Eflingar vill þakka Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Viðari Þorsteinssyni fyrir þeirra störf í þágu félagsins á þeim tæplega fjórum árum sem þau hafa verið í forystu. Framlag þeirra í þágu láglaunafólks, kvenna og fólks af erlendum uppruna á Íslandi verður seint fullþakkað.“
Mikil dramatík síðustu daga
Gustað hefur um Eflingu síðustu daga og ásakanir gengið á víxl milli fyrrverandi stjórnenda félagsins annars vegar og eins stjórnarmanns og nokkurra núverandi og fyrrverandi starfsmanna hins vegar.
Forsaga málsins er sú að í júní samþykktu starfsmenn Eflingar ályktun sem hefur ekki verið birt opinberlega. Í henni voru stjórnendur stéttarfélagsins gagnrýndir með ýmsum hætti fyrir framkomu sína gagnvart starfsfólki. Trúnaðarmenn starfsmanna undirrituðu ályktunina og hún var sett fram fyrir hönd starfsmanna.
Fyrir viku birti RÚV svo viðtal við Guðmund Baldursson, stjórnarmann í Eflingu, þar sem hann greindi frá því að hann hefði ítrekað reynt að fá ályktunina afhenta og að hann hefði áhyggjur af framkomu stjórnenda Eflingar gagnvart starfsfólki. Talaði hann meðal annars um að starfsfólk sem hefði hætt hjá Eflingu hefði talið sér „að einhverju leyti ógnað innan gæsalappa, af ógnarstjórn.“
Vegna þessa ávarpaði Sólveig Anna starfsmenn á föstudagsmorgun og bað þá um að draga til baka ályktunina. Ef þeir myndu ekki gera það myndi hún segja af sér.
Þeir gerðu það ekki heldur sendu frá sér aðra ályktun þar sem kom fram að þeir töldu ósanngjarnt að stjórnendur veltu ábyrgð á innanhúsmálum yfir á sig.
Í kjölfarið sagði Sólveig Anna af sér og ásakaði starfsmenn um að haga hrakið sig úr starfi. Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sagði upp störfum í kjölfarið en hann og Sólveig Anna hafa starfað náið saman.