Samninganefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við Grikki hefur verið send heim til Washington frá Brussel. Þetta er gert vegna þess að engar framfarir hafa orðið í viðræðum AGS og Evrópusambandsins við Grikki undanfarið, en viðræðurnar snúa að skilyrðum sem Grikkir þurfa að uppfylla til að fá áframhaldandi neyðarlán frá AGS og ESB.
Talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins greindi frá þessu fyrir skömmu og Bloomberg greinir frá. „Boltinn er mjög mikið hjá Grikkjum núna,“ sagði Gerry Rice við blaðamenn í Washington í dag. „Það er mikill ágreiningur á milli aðilanna á flestum lykilsviðum. Það hafa engar framfarir orðið í því að minnka þennan ágreining undanfarið.“ Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, mun funda með fjármálaráðherrum evrusvæðisins í Lúxemborg þann 18. júní.
Grísk stjórnvöld hafa legið undir sífellt meiri gagnrýni frá lánardrottnunum undanfarið og þykir brottför samninganefndar AGS benda enn frekar til þess að lánardrottnarnir séu að missa þolinmæði sína gagnvart Grikkjum.
#IMF has major differences with #Greece...and European stocks do this.... pic.twitter.com/NYzHD4cKRU
— Mark Barton (@markbartontv) June 11, 2015
Fyrr í dag hafði þó gætt bjartsýni um að samkomulag væri að nálgast. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, fundaði með forseta framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, eftir hádegið. Í gær fundaði hann með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Francois Hollande, forseta Frakklands. Þau sögðust sammála um að nú yrði að koma aukinn þungi í viðræðurnar, enda aðeins tuttugu dagar þangað til núverandi samkomulag Grikkja við lánardrottna sína rennur út.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, tjáði sig svo um viðræðurnar á blaðamannafundi í dag. Þar sagði hann að það væri nauðsynlegt fyrir Evrópu að samkomulag náist strax. „Það er augljóst að við þurfum ákvarðanir, ekki samningaviðræður. Grísk stjórnvöld þurfa að vera raunsærri. Það er ekki lengur tími til að halda áfram þessu fjárhættuspili. Dagurinn nálgast, óttast ég, þegar einhver segir að leikurinn sé búinn.“ Þetta þykja sterk skilaboð frá Tusk og óvenjulegt að hann tjái sig með þessum hætti. Hann sagði jafnframt að fundur fjármálaráðherranna þann 18. júní verði algjör lykilfundur. Á honum ætti að taka ákvarðarnir um framhaldið.