Bregðast ætti við verðhækkunum á húsnæðismarkaði og vaxandi hluti íbúðalána hjá bönkum með beitingu þjóðhagsvarúðartækja, til dæmis með reglum um hámark lánagreiðslna sem hlutfall af tekjum lántakenda eða hámarkshlut lánanna í eignasafni bankanna. Þetta kom fram í áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um efnahagsleg viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum, sem birtist á mánudaginn.
Fjármálakerfið sterkt en hættur víða
Í matinu kom fram að fjármálakerfið hérlendis væri í góðri stöðu, þar sem hátt eiginfjárhlutfall og góð lausafjárstaða bankanna styrkti viðnámsþrótt þeirra við vænt högg á lánasafn þeirra í framtíðinni. Hins vegar væri nauðsynlegt að fylgjast náið með mögulegum hættum sem gætu sprottið upp.
Fylgjast ætti með að kröfur bankanna á fyrirtæki sem hafa komið illa út úr faraldrinum séu rétt verðmetnar, að mati AGS. Þar bæri helst að nefna útistandandi lán fyrirtækja í ferðaþjónustugeiranum. Einnig bætir sjóðurinn við að styðja þurfi við lífvænleg fyrirtæki í greininni með skilvikum hætti.
Varúðartækjum beitt á íbúðamarkaði
Til viðbótar við óvissu um verðmæti eigna bankanna bætir sjóðurinn við að miklar verðhækkanir á húsnæðismarkaðnum og vaxandi hluti íbúðalána í eignasafni þeirra séu hættumerki fyrir fjármálakerfið. Slíkri hættu væri best að mæta með þjóðhagsvarúðartækjum sem miðuðu að endurgreiðslugetu lántakenda og hversu stór hluti eignasafns bankanna væri í húsnæðislánum. Samkvæmt AGS gætu þessar aðgerðir einnig veitt bönkunum andrými til að styðja við vöxt fyrirtækja þegar efnahagsóvisunni lýkur.
Svokölluð þjóðhagsvarúðartækiSeðlabankans eru reglur sem bankinn getur sett á til að varðveita stöðugleika fjármálakerfisins í heild. Þeirra á meðal eru reglur um eiginfjárauka á fjármálafyrirtæki, gjaldeyrisjöfnuð, laust fé og stöðuga fjármögnun.
Einnig getur Seðlabankinn komið á frekari takmörkunum á fasteignalánum ef vöxtur húsnæðislána verður óhóflegur eða verðhækkanir verða of miklar á fasteignamarkaði.Undir þessar takmarkanir heyra breytingar á veðsetningarhlutfalli á nýjum íbúðalánum og reglur sem takmarka fasteignalán til neytenda í hlutfalli við tekjur lántaka.