Grikkland þarf 50 milljarða evra til viðbótar næstu þrjú árin og viðamikla niðurfellingu skulda til þess að ná jafnvægi í hagkerfið og skapa andrúm. Þetta segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) í dag en aðeins þrír dagar eru til stefnu áður þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram í Grikklandi um tillögur lánardrottna þeirra.
AGS varar jafnframt við því að skuldir Grikkja séu ósjálfbærar, og er því ósammála leiðtogum Evrópusambandsins og þykir hafa sent þeim sterk skilaboð með þessari yfirlýsingu sinni. Samkvæmt sjóðnum þyrfti Grikkland að fá 20 ára frest til að byrja að borga skuldir til baka og að lokagreiðslur á neyðarlánum þeirra yrðu ekki borgaðar fyrr en árið 2055.
Sjóðurinn segir einnig að líklega sé nauðsynlegt að færa lán Grikkja niður um 30% af þjóðartekjum þeirra.
Þá kemur fram í yfirlýsingu AGS að þetta mat á sjálfbærni gríska hagkerfisins hefði ekki verið samþykkt af öðrum aðilum málsins, sem er í raun viðurkenning á því að lánardrottnar Grikkja eru ósammála um nauðsyn þess að fella niður skuldir.