Hagvöxtur á heimsvísu verður um 3,2 prósent á þessu ári, samkvæmtuppfærðri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), eða 0,4 prósentustigum lægri en áætlað var í spá sjóðsins í apríl.
Á næsta ári er nú útlit fyrir 2,9 prósenta aukningu á heimsframleiðslunni, samkvæmt spá sjóðsins, en fyrri spá frá því í apríl gerði ráð fyrir því að hagvöxtur á heimsvísu yrði næstum prósentustigi meiri, eða 3,8 prósent árið 2023.
Nú er staðan að mati sjóðsins töluvert dekkri en hún var í apríl. Samkvæmt því sem segir í umfjöllun á vef AGS í dag hefur verðbólga umfram fyrri spár, sér í lagi í Bandaríkjunum og stærstu hagkerfum Evrópu, leitt til þess að það þrengist um í efnahagsmálum heimsins. Einnig hefur Kína ekki náð að rífa sig upp úr kórónuveirufaraldrinum með tilheyrandi truflunum á atvinnustarfsemi og stríðsátökin í Úkraínu hafa einnig sitt að segja.
Stærstu hagkerfi heims í hægagangi
Í umfjöllun AGS segir að draga muni úr vexti í öllum þremur stærstu hagkerfum heims, Bandaríkjunum, Kína og á evrusvæðinu frá fyrri spám.
Býst AGS nú við því að hagvöxtur ársins 2023 í Bandaríkjunum nemi einungis einu prósenti á næsta ári, í ljósi þverrandi kaupmáttar bandarískra heimila og hertri peningamálastefnu bandaríska seðlabankans.
Þá muni hagvöxtur í Kína fara niður í 3,3 prósent á þessu ári, ekki síst vegna fasteignakrísu sem þar geisar. Á evrusvæðinu er svo búist við 1,2 prósenta hagvexti á næsta ári, vegna áhrifa stríðsins í Úkraínu og hertrar peningastefnu.
Þrátt fyrir að víða hafi verið hert á taumhaldi peningastefnunnar með vaxtahækkunum seðlabanka hefur AGS hækkað verðbólguspá sína frá því í apríl og býst nú við að verðbólgan verði bæði meiri og langvinnari en fyrri spá gerði ráð fyrir.
Staðan gæti orðið enn verri
Óvissuþættirnir í spá AGS eru svo flestir sagðir í þá áttina að staðan verði enn verri í efnahagsmálum heimsins, ef þeir raungerist.
Í svartsýnni en þó mögulegri sviðsmynd, þar sem til dæmis Rússar myndu hætta alfarið að selja gas til Evrópu, gæti verðbólga risið enn frekar og vöxtur heimsframleiðslunnar dregist niður í 2,6 prósent á þessu ári og niður í 2 prósent á næsta ári - sem einungis hefur gerst fimm sinnum síðan árið 1970.
Seðlabankar ættu að halda áfram að reyna að temja verðbólguna
AGS segir að sú samhenta herðing peningastefnu ýmissa ríkja sem sést hefur að undanförnu eigi sé fordæmalaus í sögunni og að sjóðurinn búist við að aðgerðirnar bíti, með minnkandi hagvexti og hjaðnandi verðbólgu.
Í umfjöllun AGS segir að hert peningastefna muni óhjákvæmilega hafa efnahagslegan kostnað í för með sér, en ráðleggur þó Seðlabönkum sem eru byrjaðir að þrengja aðgang að fjármagni til þess að halda áfram á sömu braut þar til bönd hafa náðst á verðbólguna.
Sjóðurinn segir að ríkisstjórnir geti með einbeittum stuðningi hjálpað viðkvæmum hópum að takast á við þær efnahagslegu þrengingar sem eru hafnar, en ráðleggur þeim þó, í ljósi þeirra miklu ríkisútgjalda sem veirufaraldurinn hefur kallað á undanfarin tvö ár, að mæta þeim útgjöldum með hærri sköttum eða lægri útgjöldum hins opinbera.