Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur uppfært mat sitt á umfangi stuðningsaðgerða íslenskra stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins. Sjóðurinn birti nýlega á vef sínum gagnasafn þar sem farið var yfir umfang beinna og óbeinna stuðningsaðgerða vegna áhrifa veirunnar í löndum heims.
Það vakti töluverða athygli hérlendis að stuðningur íslenskra stjórnvalda var metinn á undir 2,5 prósent af landsframleiðslu. Þessu mati hefur nú verið breytt, eftir aðfinnslur og ábendingar íslenskra stjórnvalda og stuðningsaðgerðir Íslands, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu ársins 2020, nú sagðar nema um 9,2 prósentum í gagnasafni AGS.
Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu í gær sagði að matið fyrir Ísland hefði verið skekkt. Sú skekkja hefði leitt af því að aðeins hefði verið horft til nokkurra aðgerða, einkum hlutabóta, greiðslu launa á uppsagnarfresti og útgjalda innan heilbrigðiskerfisins í tilfelli Íslands. Þá hefði mat AGS um Ísland einungis náð til ársins 2020 og en ekki til ársins í ár og þeirra næstu ólíkt því sem almennt gilti um önnur lönd í gagnagrunninum.
Margar aðgerðir hefðu því ýmist ekki verið taldar með í mati AGS fyrir Ísland eða aðeins taldar með að hluta. Það hefðu til dæmis átt við um fjárfestinga- og uppbyggingarátak, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta.
Þá væri í mati AGS stuðst við nýtingu úrræða í tilfelli Íslands, en áætlanir um aðgerðir notaðar vegna aðgerða ýmissa annarra ríkja. Þessu hefur nú verið breytt og áætlanir um umfang aðgerða sem eiga að koma til framkvæmda hér á landi, þrátt fyrir að hafa ekki þegar gert það, nú tekið með í reikninginn.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra vakti athygli á uppfærðu gagnasafni AGS í morgun.
Fréttir af því að Covid viðbragð stjórnvalda (beint og óbeint) væri kraftminna en í samanburðarlöndum byggði á ófullkomnum gögnum sem AGS hefur nú uppfært.
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) April 14, 2021
Umfangið var sagt um 2% af landsframleiðslu en í reynd losar það 9%. Okkur hefur tekist vel til.https://t.co/5nBySzypIB
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur fram á vef sínum að gögnin séu ekki ætluð til samanburðar á mili hagkerfa, þar sem viðbrögð stjórnvalda séu margbreytileg vegna mismunandi aðstæðna í mismunandi ríkjum, meðal annars með tilliti til áhrifa faraldursins og annarra áfalla.
Þá séu sjálfvirkir sveiflujafnarar á borð við almannatryggingakerfi misöflugir á milli ríkja. Sömuleiðis er tekið fram að um bráðabirgðatölur sé að ræða, þar sem ríki séu enn að bæta við stuðningsaðgerðum eða að klára að koma þeim í framkvæmd.
Miklu minni halli á ríkissjóði í fyrra en búist var við
Þegar fjármála- og efnahagsráðherra kynnti fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021 var að finna í því áætlun um rekstur ríkissjóðs í fyrra, á árinu 2020. Tekjur ríkissjóðs voru áætlaðar 769 milljarðar króna en útgjöld 1.038 milljarðar króna. Það þýddi að fjárlagahallinn átti að verða 269,2 milljarðar króna, sem yrði mesti halli frá því að byrjað var að mæla slíka í íslenska ríkisrekstrinum. Meiri en á hrunárunum 2008 og 2009.
Fyrir um mánuði síðan birti Hagstofa Íslands síðan bráðabirgðatölur um afkomu hins opinbera á síðasta ári. Í þeim tölum kom fram að tekjur íslenska ríkisins hefðu verið mun hærri en áætlað var, eða 890,4 milljarðar króna. Tekjur sem skiluðu sér til íslenska ríkisins voru því, á endanum, 121,4 milljörðum krónum meiri en reiknað var með við framlagningu fjárlaga en 45 milljörðum krónum minni en þær voru árið 2019. Útgjöld voru líka hærri en reiknað hafði verið með, eða 1.091 milljarður króna, en þar skeikaði minna en á tekjuhliðinni.
Niðurstaðan var sú að hallinn á ríkissjóð var mun minni en áætlað var við framlagningu fjárlagafrumvarpsins, eða 201 milljarðar króna. Fjárlagahallinn 2020 var því 68,2 milljörðum krónum minni en ríkisstjórnin reiknaði með, eða fjórðungi minni.