Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) mælir með tímabundinni hækkun skatta á tekjuháa einstaklinga og fyrirtæki sem högnuðust á heimsfaraldrinum. Samkvæmt sjóðnum ætti slík skattlagning að draga úr félagslegum ójöfnuði sem hefur aukist í yfirstandandi kreppu og aukið samstöðu í samfélaginu.
Í skýrslu sinni um ríkisfjármál, sem birt var í síðustu viku, sagði AGS að faraldurinn hefði aukið ójöfnuð til muna í dreifingu tekna, auðs og efnahagslegra möguleika. Samkvæmt sjóðnum tengjast þessar þrjár tegundir ójafnaðar hverri annarri og skapað vítahring misskiptingar, en því þyrftu stjórnvöld að bregðast við öllum þeirra.
Lagði sjóðurinn því til aukinnar þrepaskiptingar í skattkerfinu í iðnríkjum, auk hærri eignaskatta og skattlagningar á umframhagnaði fyrirtækja. Skatttekjurnar mætti nýta til að auka opinbera þjónustu, en þannig mætti auka traust og samstöðu innan þjóðfélagsins.
Í viðtali við Financial Times sagði Vitor Gaspar, yfirmaður rannsókna um ríkisfjármál innan AGS að ekki þyrfti að líta á aukna skattlagningu á þá sem grætt hefðu á kreppunni sem fjáröflunarleið fyrir ríkissjóð, hún hefði einnig táknrænt gildi. Lönd víða um heim ættu að íhuga slíka skattlagningu í afmarkaðan tíma þar sem hún myndi styrkja hugmyndina um að allir legðu sitt af mörkum í viðspyrnunni gegn COVID-19.
Í nýju hagspánni sinni er AGS bjartsýnn á að yfirstandandi kreppa muni hafa lítil áhrif á efnahagslífið til lengri tíma. Aðalhagfræðingur sjóðsins, Gita Gopinath, segir að þessi kreppa sé frábrugðinn þeirri síðustu, til dæmis sú engin merki uppi um að kerfislæg skuldakreppa sé í aðsigi í ríkisfjármálum þessa stundina í viðtali við Bloomberg.