Vextir yrðu enn hærri hérlendis heldur en í öðrum Evrópusambandslöndum ef íslenska krónan yrði tengd við evru, þar sem gjaldmiðlaáhætta myndi ekki hverfa við slíka tengingu. Þetta segir Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri í skýrslu sinni til fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu.
Skýrslan var birt á vef Alþingis í síðustu viku, en hún var gerð að beiðni Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, auk samflokksmanna hennar og þingmönnum Pírata og Flokks fólksins. Á meðal þess sem þingmennirnir óskuðu eftir í skýrslubeiðni sinni var að óháður aðili fjallaði um hvaða áhrif upptaka evru hefði á stöðu lífeyrissjóða.
ESB-aðild eða tenging við evru
Samkvæmt skýrslu Más felur möguleg upptaka evru í sér tvær mögulegar leiðir: Annars vegar fulla aðild að evrusvæðinu og hins vegar samningur um fasttengingu krónunnar við evru. Már segir töluverðan mun vera á áhrifum þessara tveggja leiða á stöðu lífeyrissjóðanna þar sem þeir bjóða upp á mismunandi gjaldeyrisáhættu.
Taki Ísland upp evru með inngöngu í Evrópusambandið væri hægt að minnka gjaldmiðlaáhættu verulega, að mati Más, þar sem greiður aðgangur fengist að fjármálamörkuðum aðildarlanda sambandsins. Þó telur hann að sú áhætta yrði enn til staðar, þar sem enn yrði fjárfest utan evrusvæðisins, en að hún yrði minni og miklir möguleikar væru á að verja hana.
Tenging krónunnar við evru myndi aftur á móti fela í sér meiri gjaldmiðlaáhættu, þar sem möguleikinn á rofi hannar muni allavega um langa hríð valda áhættuálagi í vöxtum og gengi hér á landi. Einnig segir Már að það gæti orðið torsótt að tengja krónuna við evruna, þar sem miklar gengissveiflur á milli gjaldmiðlana gæti leitt til þess að Seðlabanki Evrópu þyrfti oft að grípa inn í með gjaldeyrisviðskiptum til að jafna þær.
Segir ekki hægt að reikna sig inn í lausnina
Í viðtali í jólablaði Vísbendingar í fyrra sagði Már að stjórnmálamenn gætu ekki einungis vísað í útreikninga hagfræðinga um hina einu réttu niðurstöðu um ákvarðanir eins og aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Hann sagði að myntbandalag væri alvöru kostur fyrir Ísland, en að það lægi ekki endilega fyrir hvort sá kostur væri fýsilegri við núverandi aðstæður en sá sem þjóðin býr við um þessar mundir. Eini raunhæfi kosturinn á myntbandalagi væri aðild að Evrópusambandinu og að umræða, en samkvæmt Má fara umræður og ákvarðanir fyrir það langt út fyrir svið hagfræðinnar.
„Mér finnst eins og ýmsir, bæði stjórnmálamenn og aðrir, hafi tilhneigingu til að ætlast til þess að hagfræðingar reikni þá inn í lausnina. En það er ekki þannig og það verður ekki þannig,“ bætti Már við í viðtalinu.
„Ef mál hafa mjög víðtæk þjóðfélagsáhrif og pólitískar hliðar, þá verða stjórnmálamennirnir að meta alla kosti og galla slíkra mála, taka þá forystu sem þeir vilja taka á hverju sviði og þora að standa með því. Þeir geta þá ekki einungis vísað í að það sé búið að reikna þetta út og það sé það eina rétta. Því að þannig er það ekki.“