Gert er ráð fyrir að tveir íslenskir ráðherrar, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, sæki loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) sem fram fer í Glasgow í byrjun nóvember. Stjórnarmyndunarviðræður eftir Alþingiskosningar eru enn í gangi og munu stefnumótandi áherslur íslenskra ráðamanna á ráðstefnunni skýrast betur samhliða myndun ríkisstjórnar.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari forsætisráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis við fyrirspurn Kjarnans.
Hvað er þetta COP?
COP er stytting á enska heitinu „Conference of the Parties“ eða ráðstefna aðildarríkja og er þar vísað til alþjóðlegra samninga, annars vegar um loftslagsmál og hins vegar fjölbreytni lífríkisins. Sameinuðu þjóðirnar skipuleggja ráðstefnurnar en þátttakendur eru háttsettir fulltrúar ríkja, staðbundinna samtaka og frjálsra félagasamtaka. Loftslagsráðstefnan í París var sú 21. Í röðinni og var því kölluð COP21 og sú sem bráðlega hefst í Glasgow er sú 26. Og kallast því til styttingar og einföldunar COP26.
Ábyrgð Íslands gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna liggur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
Katrín flytur ávarp á leiðtogaráðstefnu COP26
Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra sæki leiðtogaráðstefnu loftslagssamningsins sem haldin verður í upphafi COP26. Þar mun Katrín flytja ávarp og taka þátt í viðburðum. Tveir fulltrúar úr forsætisráðuneytinu verða í fylgdarliði hennar.
Umhverfis- og auðlindaráðherra sækir seinni viku ráðstefnunnar. Með honum í för verður einn fulltrúi úr ráðuneytinu. Guðmundur Ingi mun taka þátt í hliðarviðburðum og tvíhliðafundum, m.a. um mikilvægi þess að endurheimta votlendi, um súrnun sjávar og um sérstakan samning sem unnið er að um loftslagsmál, viðskipti og sjálfbærni.
Starfsmenn ráðuneyta og sérfræðingar stofnana í sendinefnd
Þess utan munu þrír fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og tveir fulltrúar frá utanríkisráðuneytinu sækja fundinn allan tímann. Í sendinefndinni verða einnig sérfræðingar frá undirstofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sem vinna að loftslagsmálum með ýmsum hætti. Þetta eru sérfræðingar frá Umhverfisstofnun, Veðurstofunni og Landgræðslunni. Jafnframt verða fulltrúar frá Loftslagsráði og Orkustofnun á fundinum.
Þá styrkir umhverfis- og auðlindaráðuneytið fulltrúa ungmenna til þátttöku á fundinum. Er þetta í fyrsta sinn sem fulltrúi ungmenna er í hinni opinberu sendinefnd.
Opið er fyrir skráningu á COP26 til loka næstu viku. Fjöldi fulltrúa íslenskra stjórnvalda á fundinum mun því mögulega taka einhverjum breytingum, segir í svari ráðuneytanna við fyrirspurn Kjarnans.
Taka niðurstöður vísindaskýrslu IPCC alvarlega
Þótt áherslur íslenskra ráðamanna á fundinum eigi eftir að skýrast betur samhliða myndun ríkisstjórnar segir í svari ráðuneytanna að íslensk stjórnvöld taki alvarlega niðurstöður nýjustu vísindaskýrslu IPCC, sérfræðingahóps milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Einnig hafi Ísland á vettvangi loftlagsmála talað fyrir mikilvægi þess að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku og orkuskiptum, jafnréttismálum, mikilvægi sanngjarnra umskipta og verndun sjávar. Eins hafa aðstoð við þróunarlöndin á sviði loftslags- og orkumála fengið aukið vægi hjá íslenskum stjórnvöldum og skólar Sameinuðu þjóðanna á sviði jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttismála leikið stórt hlutverk í gegnum tíðina.
Ísland hefur jafnframt lýst því yfir að fjármagn til loftslagstengdrar þróunaraðstoðar verði aukið og segja ráðuneytin í svari sínu að fjármagn til alþjóðlegrar loftslagstengdra verkefna hafi aukist um 70 prósent milli áranna 2019-2021.
Í júní skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp sem var falið það hlutverk að undirbúa þátttöku Íslands í aðildaríkjafundi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26). Í hópnum eiga sæti fulltrúar frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, sem leiðir vinnuna, og frá forsætis- og utanríkisráðuneyti.
Samkvæmt Parísarsamningnum skulu ríki senda inn hert markmið fyrir COP26 og hefur Ísland tekið undir hvatningu til ríkja um að þau standi við það og sendi inn hert landsmarkmið (NDC) fyrir fundinn. Það gerðu íslensk stjórnvöld fyrr á þessu ári.
Stefnt að kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040
Í Parísarsamningum er einnig hvatning til ríkjanna að senda til samningsins langtímastefnu um kolefnishlutleysi fyrir COP26. Ísland mun senda inn slíkt skjal fyrir fundinn, þar sem m.a. verður fjallað um markmið um að kolefnishlutleysi skuli náð á Íslandi eigi síðar en 2040, en markmiðið var lögfest á síðasta löggjafarþingi.
Þau mál sem reiknað er með að verði efst á baugi í samningaviðræðunum á COP26 varða hina svokölluðu reglubók Parísarsamningsins, þ.e. nánari útfærslu á framkvæmd samningsins. Samkomulag náðist um flesta þætti reglubókarinnar á COP24 árið 2018, en ákveðin mikilvæg atriði stóðu út af, sem enn á eftir að ná samkomulagi um.
Þar ber hæst dagskrárliði varðandi 6. grein samningsins um samstarf og markaðskerfi með kolefniseiningar (Markets) og hins vegar um upplýsinga- og skýrslugjöf (Transparency).
Auk þess er mikil áhersla á að tryggja fjármögnun loftslagstengdra verkefna, ekki hvað síst í þróunarlöndunum.