Ferðamálastofa opnaði nýlega fyrir viðamikin gagnagrunn yfir þá staði sem hafa mest aðdráttarafl á Íslandi. Alls var upplýsingum safnað um yfir 2.500 staði á öllu landinu í verkefni sem hefur staðið í fjögur ár, eða síðan Alþingi samþykkti Ferðamálaáætlun til 2020 í júní 2011.
Auðvelt er að týna sér í korti, sem byggir á gagnagrunninum, og finna leyndar perlur á landsbyggðinni en fólk í heimabyggðum var fengið til að tilnefna staði og leiðir og meta út frá fyrirfram ákveðnum viðmiðum. Við hvern punkt má lesa um áfangastaðinn, hvað þar er að finna og jafnvel fá leiðarlýsingu þangað.
Aðspurður segir Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður Ferðamálastofu á Akureyri, að þetta séu að einhverju leyti staðir sem vottaðir hafa verið af heimamönnum. „Það eru líka alltaf einhver svæði sem eru umdeild. Þarna eru til dæmis ekki staðir sem eru innan mikils þéttbýlis,“ segir hann. Það er þó umdeilt hvernig skal skilgreina þéttbýli. Enginn punktur er þess vegna í miðbæ Reykjavíkur, en Gróttuviti og kennileiti í Viðey eru til dæmis merkt.
Nær allir staðirnir sem tilnefndir voru rötuðu á þetta kort sem skoða má í sérstakri kortasjá á vefnum. Birtingu upplýsinga um einhverja staði var frestað vegna þess að þeir þykja of viðkvæmir fyrir mikilli ágengni og þarfnast frekari undirbúnings.
Í skýrslu um verkefnið sem gefin var út samhliða opnun kortsins á vefnum segir að verkefninu hafi verið ætlað að „kortleggja auðlindir ferðaþjónustunnar“ eins og það er orðað. Ferðaþjónustufyrirtæki hafa nú heildstæðan gagnagrunn að leita í þegar þeir flytja ferðamenn um landið í þeirri von að heimsækja áhugaverða staði. Punktarnir á kortinu er þess vegna merktir rauðir ef þeir teljast sérstaklega áhugaverðir en gulir ef þeir hafa miðlungs aðdráttarafl.
Elías segir að ferðaþjónustufyrirtæki geti hagnýtt sér þessar upplýsingar til að áætla hvar tækifæri séu að finna. Hugsunin í upphafi hafi verið að þarna væri hægt að raða saman upplýsingum um staði og þjónustu og áttað sig á hugsanlegum tækifærum í ferðaþjónustu, eða ógnum.
Gögnin gagnast ekki aðeins ferðaþjónustunni eða áhugasömum ferðalöngum því þau hafa þegar verið fengin faghópi vegna Rammaáætlunar 3, Landsnet notar þessi gögn í umhverfismati fyrir kerfisáætlun til ársins 2024 og mat virkjunarkosta Landsvirkjunar veltur meðal annars á þessum gagnagrunni.
„Þetta verkefni þróaðist í raun og veru á meðan á því stóð. Hugsunin var fyrst að fara af stað með þetta fyrir skipulagsvinnu og þróun á nýjum vörum fyrir ferðaþjónustuna,“ segir Elías. „En þetta er ekki síst hugsað fyrir sveitarfélög og aðra til að nýta við skipulagsvinnu.“
Borgarfjörður er sögusvið margra íslendingasagna.
Auk þessa almenna korts söfuðust upplýsingar í annan gagnagrunn fyrir sögusvið Íslendingasagna. Í því safni má smella á kennileiti og lesa brot úr þeim íslendingasögum þar sem staðurinn kemur fyrir.
Í þessari vinnu voru ekki aðeins teknar saman upplýsingar yfir staði sem þegar hefur verið safnað upplýsingum um heldur gögnum og heimildum safnað um fleiri staði sem ekki voru til í gagnagrunni Vegagerðarinnar eða Landmælinga Íslands. Sem dæmi hefur korta- og almennum upplýsingum verið safnað um áhugaverðan gróður, áhugavert dýralíf, berjalönd, friðlýstar rústir og annað í þeim dúr.
Skoða má bæði kortin á vefnum en þau eru hýst hjá Alta, fyrirtækinu sem annaðist framkvæmd verkefnisins síðan síðasta sumar.