Fyrr í vikunni hófust í Danmörku réttarhöld yfir hjúkrunarfræðingi sem grunaður er um að hafa orðið fjórum sjúklingum að bana á sjúkrahúsinu í Nykøbing á eyjunni Falstri.
Hjúkrunarfræðingurinn, þrítug kona, var á næturvakt á sjúkrahúsinu í Nykøbing (Nykøbing F sygehus) aðfaranótt 1. mars sl. Þessa nótt létust þrír sjúklingar á hennar deild á sjúkrahúsinu. Kærasti vinnufélaga konunnar hringdi til lögreglu um hádegisbil þann dag og sagði frá því að unnasta sín, sem vann á spítalanum og er vitni í málinu, hefði komið óvænt inn á stofu á deildinni um nóttina. Þar hefði hún séð hjúkrunarfræðinginn með tvær sprautunálar í hendinni bogra yfir rúmliggjandi konu. Hjúkrunarfræðingurinn hafði reynt að fela sprautunálarnar en vitnið sagðist hafa séð þær mjög greinilega. Skömmu síðar dó konan á áðurnefndri stofu og ennfremur tveir aðrir sjúklingar á þessari sömu deild. Fjórði sjúklingurinn var hætt kominn en læknum tókst að endurlífga hann.
Við rannsókn fannst mikið magn morfíns og stesolids (róandi) í blóði þeirra þriggja sem létust þessa nótt og sömu sögu var að segja af sjúklingnum sem lifði af. Lögreglunni í Nykøbing þótti frásögn vitnisins svo trúverðug að hjúkrunarfræðingurinn var handtekinn þennan sama dag og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan. Sprauturnar sem saksóknari í réttarhöldunum kallar morðvopnin fundust á spítalanum. Ein sprautunálin innihélt leifar, áðurnefnds morfíns og stesolids auk eins efnis til viðbótar en læknar og hjúkrunarfræðingar hafa borið fyrir réttinum að þessum þrem efnum sé aldrei blandað saman. Efnin voru þau sömu og fundust í blóði sjúklingsins sem tókst að endurlífga.
Umfangsmikil rannsókn
Rannsókn málsins hefur verið mjög umfangsmikil og um það bil eitt hundrað manns verið yfirheyrðir. Skömmu eftir að konan var handtekin vaknaði grunur um að hún tengdist enn einu mannsláti, á annari deild, á þessu sama sjúkrahúsi árið 2012. Hún hefur nú verið ákærð vegna þess máls ásamt hinum fyrri.
Tíu andlát að auki skoðuð
Við upphaf réttarhaldanna var frá því greint að verið væri að rannsaka tíu andlát til viðbótar. Að sögn saksóknara leikur grunur á að hjúkrunarfræðingurinn tengist þeim en niðurstöður úr þeim rannsóknum eiga að liggja fyrir innan nokkurra mánaða.
Við réttarhöldin kom fram að vinnufélagar konunnar á sjúkrahúsinu höfðu rætt sín á milli um að "það gerðist alltaf svo mikið" þegar hún væri á næturvakt og einn hjúkrunarfræðingur hafði neitað að vera með henni á vakt á nóttunni.
Slúður segir verjandinn
Verjandi hjúkrunarfræðingsins segir að það sem starfsfólk tali um sín á milli sé ekki marktækt. Það sé einfaldlega slúður eins og þekkist á öllum vinnustöðum og hafi vinnufélagarnir haft grun um eitthvað misjafnt hafi þeir átt að hafa samband við lögreglu en ekki pískra á göngunum. Skjólstæðingur sinn hafi lýst sig saklausan af öllum ásökunum. Hjúkrunarfræðingurinn hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald næstu fjórar vikur.