Fundur ríkisstjórnarinnar, þar sem tillögur sóttvarnalæknis að hertum aðgerðum innanlands verða ræddar, fer fram í Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum síðdegis í dag. Á vef RÚV kemur fram að fundarstaðurinn hafi verið valinn sökum þess að nær allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru á faraldsfæti um landið.
Egilsstaðir reyndust heppilegasta staðsetningin. Fundurinn hefst kl. 16 og samkvæmt því sem segir í frétt RÚV verða ráðherrar til viðtals eftir fundinn, en ekki er talið líklegt að formlegur blaðamannafundur verði haldinn.
Ráðherrar njóta sólarinnar
Ráðherrar í ríkisstjórninni eru sem áður segir á faraldsfæti og hafa á undanförnum dögum verið að birta myndir af ferðalögum sínum á Instagram og öðrum samfélagsmiðlum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur verið á ferð um Austurlands í veðurblíðunni sem þar hefur verið ríkjandi.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur einnig birt sólríkar myndir af sér og sínum á síðustu dögum, sem hlýtur að þýða að hann sé staddur fjarri höfuðborginni. Það hefur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar einnig gert, en hún virðist hafa verið stödd í nágrenni fundarstaðarins á Egilsstöðum undanfarna daga.
Aðrir ráðherrar virðast nær höfuðborginni og reglulegum fundarstöðum ríkisstjórnarinnar, en á Instagram má sjá Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra í smíðavinnu og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í hestafærð í uppsveitum Borgarfjarðar.
Skiptar skoðanir um þörf á hertum aðgerðum
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði minnisblaði um einhverjar hertar sóttvarnaráðstafanir til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í gær.
Skiptar skoðanir um þörfina á hertum aðgerðum hafa verið uppi í samfélaginu, en sóttvarnalæknir telur þörf á því með tilliti til óvissu sem sé uppi um það mörg alvarleg tilfelli muni koma upp hjá þeim sem eru bólusettir. Hann telur áhættuna af því ekki þekkta, en að hún muni skýrast betur á næstu vikum.
Hvort ríkisstjórnin grípi í bremsuna er ekki ljóst, en ætla má að mismunandi skoðanir séu uppi innan hennar rétt eins og í samfélaginu öllu.