Eitt af síðustu verkum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, áður en hún baðst lausnar frá málefnum dóms- og ákæruvalds, var að fella úr gildi reglugerð þáverandi dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, frá árinu 2009, þar sem þóknanir verjenda og réttargæslumanna voru takmarkaðar við tíu þúsund krónur að hámarki á klukkustund.
Reglugerð Hönnu Birnu er dagsett 15. ágúst, eða sama dag og opinberað var að Ríkissaksóknari hygðist ákæra aðstoðarmann hennar, Gísla Frey Valdórsson, fyrir meinta aðild hans að lekamálinu svokallaða. Þennan sama dag baðst Hanna Birna svo lausnar frá málefnum dóms- og ákæruvalds.
Reglugerðin frá 2009 var viðbragð stjórnvalda til að bregðast við auknum fyrirséðum kostnaði ríkissjóðs vegna verjenda og réttargæslumanna í kjölfar bankahrunsins.
Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu var kostnaður ríkissjóðs vegna verjenda og réttargæslumanna röskar 294 milljónir króna árið 2009, en reglugerðin sem takmarkaði þóknanir til fyrrgreindra tók ekki gildi fyrr en 14. ágúst það ár. Árið 2010 nam kostnaður ríkissjóðs vegna þessa ríflega 254 milljónum króna, og lækkaði lítillega á milli ára vafalítið vegna fyrrgreindrar reglugerðar frá árinu áður.
Árið 2011 hækkaði kostnaður ríkissjóðs vegna verjenda og réttargæslumanna upp í ríflega 262 milljónir, og árið 2012 nam kostnaðurinn hátt í 308 milljónum króna. Á síðasta ári hækkaði svo kostnaður ríkissjóðs enn frekar vegna þóknanna til handa verjendum og réttargæslumönnum, og endaði í tæplega 425 milljónum króna í lok árs 2013.
Samkvæmt lauslegri könnun Kjarnans rukka lögmenn og lögfræðistofur að jafnaði um 20 þúsund krónur fyrir hverja klukkustund, eða tvöfalt hærra en kveðið er á um í reglugerðinni frá árinu 2009 sem innanríkisráðherra felldi úr gildi í ágúst. Því má áætla með nokkurri vissu að viðbúið sé að kostnaður ríkissjóðs vegna verjenda og réttargæslumanna á þessu ári, og þau næstu á eftir, muni hækka, í ljósi þess að lögmenn geta nú krafið ríkið um málskostnað út frá tímagjaldi sínu.
Þess ber þó að geta að það verður áfram í valdi hvers dómara að ákvarða málskostnað verjenda við dómsuppkvaðningu, með hliðsjón af framlögðum reikningum. Tilhneiging þeirra hefur verið að ákvarða lægri málskostnað en reikningar verjenda segja til um. Þá gerir ríkið sömuleiðis kröfu á þann dæmda að hann endurgreiði ríkissjóði útlagðan kostnað vegna verjanda hans, og þá veltur endurgreiðslan á því hvort viðkomandi sé borgunarmaður fyrir reikningnum.