Ngozi Fulani, yfirmaður góðgerðarsamtaka, var meðal 300 gesta í góðgerðarboði Camillu Englandsdrottningar í vikunni þar sem tilefnið var herferð þar sem barist er gegn heimilisofbeldi sem Camilla stendur fyrir.
Susan Hussey, 83 ára hirðdama og ein sex guðmæðra Vilhjálms prins, spurði Fulani, sem er svört, ítrekað hvaðan hún „raunverulega“ væri. Fulani lýsir samtalinu við Hussey eins og yfirheyrslu og segir samræðurnar, ef svo má kalla, andlegt ofbeldi.
„Þetta var eins og yfirheyrsla. Ætli ég geti ekki aðeins útskýrt þetta svona: hún spurði ítrekað: Hvaðan ertu? Hvaðan er fólkið þitt?“ segir Fulani.
Hún lýsir samtalinu á þessa leið í samtali við BBC:
Hussey: Hvaðan ertu?
Fulani: Sistah Space (góðgerðarsamtökin sem hún stýrir)
Hussey: Nei, hvaðan ertu?
Fulani: Við erum með aðstöðu í Hackney.
Hussey: Nei, hvaðan frá Afríku ertu?
Fulani: Ég veit það ekki, það eru ekki til gögn um það.
Hussey: Jæja, þú hlýtur að vita hvaðan þú ert, ég dvaldi um tíma í Frakklandi. Hvaðan ert þú?
Fulani: Héðan, frá Bretlandi.
Hussey: Nei, en af hvaða þjóðerni ertu?
Fulani: Ég er fædd og uppalin í Bretlandi.
Hussey: Nei en, hvaðan ertu í raun og veru, hvaðan kemur fólkið þitt?
Fulani: Fólkið mitt, frú mín, hvað meinar þú?
Hussey: Ó það er greinilegt að það verður áskorun að fá þig til að segja mér hvaðan þú ert. Hvenær komstu hingað fyrst?
Fulani: Frú! Ég er breskur ríkisborgari, foreldrar mínir komu hingað á 6. áratugnum þegar…
Hussey: Ó ég vissi að við kæmumst þangað á endanum, þú ert frá karabísku eyjunum!
Fulani: Nei frú, arfleifð mín er afrísk, ég á ættir að rekja til Karíbahafsins og ríkisfang mitt er breskt.
Hussey: Ó svo þú ert frá…
Mixed feelings about yesterday's visit to Buckingham Palace. 10 mins after arriving, a member of staff, Lady SH, approached me, moved my hair to see my name badge. The conversation below took place. The rest of the event is a blur.
— Sistah Space (@Sistah_Space) November 30, 2022
Thanks @ManduReid & @SuzanneEJacob for support🙏🏾 pic.twitter.com/OUbQKlabyq
Getur konungsfjölskyldan endurspeglað fjölbreytileika bresks samfélags?
Hussey baðst síðar afsökunar á orðum sínum og í tilkynningu frá konungshöllinni segir að kynþáttafordómar megi hvergi þrífast. Hussey var vikið úr bresku hirðinni og er athæfi hennar metið óásættanlegt.
Aldur hirðdömunnar hefur verið dreginn inn í umræðuna og heyrst hafa raddir þess efnis að sýna þurfi skilning að Hussey sé einfaldlega af annarri kynslóð. Fulani gefur lítið fyrir þær skýringar.
„Þetta er að mínu mati óvirðing og í raun aldursfordómar,“ segir Fulani, sem furðar sig á að svona framkoma eigi sér stað á viðburði þar sem tilefnið er að vernda konur gegn hvers konar ofbeldi.
„Þó svo að þetta sé ekki líkamlegt ofbeldi, þá er þetta ofbeldi.“
Atvikið hefur vakið upp spurningar hvort breska konungsfjölskyldan geti endurspeglað fjölbreytileika bresks nútímasamfélags og dregur upp stífa mynd af Buckingham-höll.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kynþáttafordómar varpa skugga á bresku konungsfjölskylduna, síður en svo. Í viðtali við Opruh Winfrey greindu Harry og Meghan frá því að kynþáttafordómar innan konungshallarinnar hefðu haft áhrif á ákvörðun þeirra um að segja skilið við konungunlegar skyldur sínar og flytja til Kanada, og síðar Bandaríkjanna.
Í viðtalinu kemur fram að þegar Meghan sagði frá kynþáttafordómum sem hún og ófætt barn hennar hefðu orðið fyrir frá fólki í fjölskyldunni var því hins vegar mætt með þrúgandi þögn klukkustundum saman. Og ekki stakt orð barst frá höllinni í tvo sólarhringa um þá höfnun og það afskiptaleysi sem Meghan upplifði, örvingluð og óttaslegin, er hún bað um aðstoð vegna yfirþyrmandi vanlíðunar.
Konungshöllin virðist hafa lært eitthvað af þessu, það að leið að minnsta kosti ekki langur tími þar til greint var frá því að Hussey væri ekki lengur hluti af bresku hirðinni, sem hún var þó í rúm 50 ár.
Náin vinkona Elísabetar drottningar en ekki í náðinni hjá Díönu
Susan Katharine Hussey, barónessa af Norður Bradley, er 83 ára og ein guðmæðra Vilhjálms Bretaprins. Hussey og Elísabet Englandsdrottning voru mjög nánar.
Hussey kom stuttlega fyrir í nýjustu þáttaröðinni af The Crown þar sem ljósi er varpað á náið samband hennar og Elísabetar heitinnar Englandsdrottningar. Hussey hefur starfað sem hirðdama konungsfjölskyldunnar frá 1960, þegar Elísabet eignaðist sitt þriðja barn, Andrew prins.
Í fyrstu fólst starf hennar einna helst í að aðstoða við að svara bréfum en varð fljótt hluti af innsta hring drottningar og aðstoðaði nýja nýgræðinga innan konungsfjölskyldunnar að aðlagast lífinu í höllinni, þar á meðal Díönu prinsessu og Meghan Markle. Samkvæmt höfundi bókarinnar The Windsor Knot, Christopher Wilson, þar sem fjallað er um líf Díönu í höllinni, kunni hún illa við hirðdömuna Susan.
Hussey og Elísabet voru mjög nánar og fylgdi Hussey henni til að mynda í jarðarför Filippusar í apríl í fyrra og vék ekki frá henni.
Konungshöllin tilkynnti nýlega að Hussey og aðrar hirðdömu sem aðstoðuðu Elísabetu drottningu í hennar störfum myndu nú aðstoða Karl konung við ýmsa viðburði og verða nú titlaðar „dömur hirðarinnar“ (e. Ladies of the household).
Hussey hefur nú sagt sig frá því starfi og beðist afsökunar á því að hafa endurtekið spurt Fulani hvaðan hún væri í raun og veru.
Í tilkynningu frá konungshöllinni segir að atvikið sé álitið mjög alvarlegt og verði „rannsakað í þaula“. Það felst meðal annars í því að bjóða Fulani aftur í höllina til að ræða hennar upplifun, ef hún óskar.