Alibaba Group Holding, stærsta netfyrirtæki Asíu sem rekur meðal annars samnefnda netverslun, dró nýverið til baka atvinnuauglýsingu sem vakti hörð vibrögð meðal almennings. Í auglýsingunni var auglýst eftir starfskrafti með eiginleika þekktrar japanskrar klámmyndaleikkonu, til að hvetja tölvuforritara fyrirtækisins til góðra verka. Fréttamiðillinn Bloomberg greinir frá málinu.
Alibaba auglýsti eftir áhugasömum sem kunna að halda „kóðunar-öpunum“ svokölluðum að verki, að vekja þá og skipuleggja morgunfundi. Til að hljóta stöðuna var tiltekið í auglýsingunni að líkamlegt atgervi á borð við klámmyndaleikkonuna Sola Aoi myndi auka möguleika umsækjenda.
Auglýsingin birtist á sama tíma og bandarísk tæknifyrirtæki eru gagnrýnd fyrir mikið kynjamisrétti og mismunun. Þrátt fyrir gott orðspor Alibaba hvað varðar fjölda kvenna í stjórnunarstörfum hjá fyrirtækinu, sætti umrædd starfsauglýsing harðri gagnrýni á kínverskum samfélagsmiðlum.
„Það er ekki bara særandi móðgun gagnvart kvennmönnum að slíkt starf fyrirfinnist, heldur sömuleiðis gagnvart karlmönnum og ekki síst þeim sem starfa sem tölvuforritarar,“ hefur Bloomberg eftir fyrrverandi starfsmanni Alibaba, sem vann við forritun.
Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir það að um misheppnaða tilraun til spaugilegrar markaðssetningar hafi verið að ræða. Þó fyrirtækið auglýsi enn eftir „klappstýru“ fyrir tölvuforritara hefur samanburðurinn við klámmyndaleikkonuna verið fjarlægður og karlar hvattir til að sækja um stöðuna til jafns við konur.
„Við biðjum alla þá sem móðguðust vegna auglýsingarinnar afsökunar. Alibaba er staðráðið í að stuðla að jafnrétti innan fyrirtækisins án mismununar,“ að því er fram kemur í yfirlýsingu fyrirtækisins.