Ný skoðanannakönnun, sem greint var frá í dag, sýnir að stuðningur við Verkamannaflokkinn í Skotlandi er í sögulegri lægð og að Alistair Darling, fyrrum fjármálaráðherra Bretlands sem leiddi hreyfingu sambandssinna í nýlegum sjálfstæðiskosningum í Skotlandi, sé í mikilli hættu á að missa sæti sitt á breska þinginu. Frá þessu er greint í Edinburgh Evening News.
Skoskir flokkar fá alls 59 sæti á breska þinginu, Westminster, og í dag er sitja þingmenn skoska Verkamannaflokksins í 41 þeirra. Könnunin sem birt var í morgun sýnir hins vegar að fylgi við Verkamannaflokkinn í Skotlandi mælist nú einungis 27 prósent. Samkvæmt þeirri niðurstöðu myndi flokkurinn fá 16 þingmenn, og þar með tapa 25. Einn þeirra sem er í mikilli hættu á að tapa þingsæti sínu er Alistair Darling, sem er í dag þingmaður suðvestur-Edinborgar. Kosið verður á Bretlandi á næsta ári.
Kosningabaráttan skaðaði flokkinn
Darling var í forsvari fyrir „Better Together“ fylkinguna, sem barðist hart gegn sjalfstæði Skotlands í aðdraganda kosninga um slíkt sem fram fóru 18. september síðastliðinn. Það fór svo að Skotar sögðu Nei í kosningunum.
Margir fréttaskýrendur eru þeirrar skoðunar að loforð leiðtoga stærstu stjórnmálaflokka Bretlands um aukin völd til Skotlands ef almenningur myndi hafna sjálfstæði hafi skipt sköpum í þeirri niðurstöðu. Síðan þá hafa verið uppi miklar gagnrýnisraddir um hvort leiðtogarnir þrír, David Cameron, Nick Clegg og Ed Milliband, hafi í raun haft eitthvað umboð til að lofa slíkri aukningu á völdum. Viðræður um valdatilfærsluna eiga að hefjast á morgun og verður stýrt af Smith Lávarði af Kelvin.