Allir ritstjórar blaðanna tíu sem Fótspor gaf út þar til um helgina, þegar Björn Ingi Hrafnsson keypti réttinn að útgáfu blaðanna, voru verktakar. Því var hægt að segja upp verksamningum þeirra með viku uppsagnarfresti. Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, furðar sig á því í samtali við Rúv og segir störf ritstjóra þess eðlis að þeir eigi að vera launamenn og njóta réttinda sem slíkir.
„Mér finnst það fráleitt, sé það tilfellið, að um ótímabundna verktakasamninga sé að ræða og nánast trúi því ekki.“ Rúv greinir frá því að einhverjir ritstjóranna hafi aðeins verið með munnlega ráðningarsamninga.
Eins og greint var frá um helgina keypti Vefpressan útgáfuréttinn að blöðunum, en félagið rekur nú þegar Pressuna, Eyjuna og DV. Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi Vefpressunnar, sagði við Rúv í gær að útgáfunni yrði haldið áfram en starfsmannamálin yrðu skoðuð á næstunni. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig fyrr en Samkeppniseftirlitið og Fjölmiðlanefnd hafi skoðað málið.
Björn Þorláksson, sem var ritstjóri Akureyri vikublaðs, gaf það út í morgun að hann myndi ekki starfa áfram undir stjórn nýrra eigenda. „Ekki séns í helvíti, Björn Ingi Hrafnsson,“ sagði hann um það eftir að hafa hugsað málið í tvær nætur að eigin sögn. Hann segir á Facebook-síðu sinni að hann gæti aldrei átt trúnað við Björn Inga, „því ég trúi ekki að þú hafir trúnað við almannahagsmuni að leiðarljósi með þinni útgáfustarfsemi. Held að þín áhersla sé á hreina sérhagsmuni.“