Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti í gær val á tillögum sem áfram verður unnið með í skipulagsvinnu varðandi bæði Miklubrautarstokk og Sæbrautarstokk, en á báðum stöðum er stefnt að því að leiða bílaumferð ofan í jörðina á næstu árum. Framkvæmdirnar eru báðar hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Hvað Miklubrautina varðar varð tillaga Yrkis arkitekta, Dagný Land Design og Hnit verkfræðistofu hlutskörpust, en hvað Sæbrautina varðar verður áfram unnið með tillögu Arkís arkitekta, Landslags og Mannvits, en þó gætu hugmyndir allra teyma sem tóku þátt í hugmyndaleit vegna stokkanna verið nýttar við áframhaldandi skipulagsvinnu að einhverju leyti.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri boðar í færslu á Facebook í dag að stefnt sé að því að Miklabraut verði komin í stokk samhliða því sem nýr Landspítali verði tilbúinn, eða árin 2025-2026. Hann kynnti áformin á opnum íbúafundi í Hlíðahverfi í gærkvöldi.
„Fjármögnun framkvæmdarinnar er hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Vegagerðin er að undirbúa útboð á hönnun stokksins en Reykjavíkurborg leiðir skipulagsvinnuna á yfirborði. Eigum frábært samstarf við Betri samgöngur, Vegagerðina og síðast en ekki síst íbúa. Þetta er sannarlega flókið verkefni um leið og það er spennandi,“ segir borgarstjóri á Facebook.
í gær kynnti ég á opnum íbúafundi í Hlíðunum þá tillögu sem unnið verður áfram með varðandi skipulag á svæðinu þar sem...
Posted by Dagur B. Eggertsson on Thursday, February 3, 2022
Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata í samgöngu- og skipulagsráði sögðu í bókun sinni á fundi ráðsins í gær að af þeirra hálfu væri lögð áhersla á að „við áframhaldandi vinnu verði lögð áherslu á forgang gangandi og hjólandi og Borgarlínu á svæðunum tveimur.“
„Þannig verði litið til lausna þar sem vegir á Miklubrautarstokk séu einungis vegna Borgarlínu en ekki hugsaðir fyrir gegnumakstursumferð. Loks ber að huga að því að Borgarlína sé ávallt höfð í hæsta gæðaflokki, liggi í sérrými og að borgarlínustöðvar veiti farþegum fullt skjól fyrir veðri og vindum,“ sagði í bókun fulltrúa meirihlutans.