Í lok september síðastliðins voru 279 karlar og 38 konur á biðlista eftir afplánun í fangelsi. Samanlagt voru því 317 manns að bíða eftir að afplána dóma sem þeir höfðu verið dæmdir til að sitja af sér.
Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, um stöðu kvenna í fangelsum landsins sem birt var á vef Alþingis í dag.
Þar segir að ellefu konur hafi verið í afplánun í lok septembermánaðar. Sex þeirra voru í fangelsinu á Hólmsheiði, þrjár á Sogni og tvær voru að afplána utan fangelsa.
Umboðsmaður Alþingis birti í september skýrslu þar sem stóð að mögulega væri tilefni til að taka ólíka stöðu karla og kvenna í fangelsum landsins til sérstakrar skoðunar. Skýrslan var gerð í kjölfar þess að umboðsmaður fór í óvænta eftirlitsferð á Kvíabryggju þar sem 20 karlar afplána dóma. Var það mat hans að Kvíabryggja væri eftirsóknarvert fangelsi samanborið við önnur, en um svokallað opið fangelsi er að ræða. Eina opna úrræðið sem býðst konum er hins vegar Sogn, sem þykir ekki jafn eftirsóknarvert. Auk tveggja opinna fangelsa eru tvö lokuð fangelsi á Íslandi: áðurnefnt fangelsi á Hólmsheiði og Litla-Hraun.
Sjálfboðaliða með jóga- og leikfimitíma fyrir konur
Þorbjörg spurði ráðherra hvort hann tæki undir það mat umboðsmanns Alþingis að það hallaði á konur innan fangelsiskerfisins þegar kæmi að aðstöðu. Í svari Jóns segir að í skýrslu umboðsmanns segi að tilefni sé til að skoða aðstæður kvenfanga í íslenskum fangelsum með heildstæðari hætti en hefur verið gert þar sem meiri hluti fanga sé karlkyns og fullnustukerfið því að miklu leyti mótað með það í huga. „Innan fullnustukerfisins hefur verið reynt að koma til móts við aðstæður kvenna í fangelsum og þá staðreynd að konur hafi færri vistunarmöguleika en karlar í fangelsum. Það hefur til dæmis verið gert með því að konur hafa aðgang að stærra útivistarsvæði á Hólmsheiði en karlar og aukatómstundaherbergi þar og þá fá þær forgang í vinnu á Hólmsheiði. Sjálfboðaliðar hafa á tímabilum komið í fangelsin með jóga- og leikfimitíma fyrir konur.“
Fjöldi þeirra sem bíða eftir afplánun hefur dregist saman frá því sem áður var en Kjarninn greindi frá því snemma árs 2018 að þá hafi 560 manns beðið eftir því að komast í afplánun. Í þeirri umfjöllun kom einnig fram að tæpur helmingur þeirra sem sat inni í íslenskum fangelsum á þeim tíma hefðu setið inni áður.