Allar sex sjónvarpsstöðvar Grikklands spá því að grískir kjósendur hafni samkomulagi við kröfuhafa gríska ríkisins um frekari aðhaldsaðsgerðir í ríkisrekstri landsins í staðinn fyrir frekari fjárhagsaðstoð. Kjörstaðir lokuðu klukkan 16 og fyrstu útgönguspár sýna einnig að Grikkir hafi sagt nei við samkomulaginu. Þó virðist vera gríðarlega mjótt á mununum og ljóst að gríska þjóðin er þverklofin í málinu. Þetta má sjá á vef The Guardian.
Skoðanakannanir í síðustu viku bentu til þess að samkomulagið yrði samþykkt með naumindum en síðustu kannanir sem voru gerðar áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram í dag bentu til þess að það væri að dragast hratt saman milli fylkingu.
Búist er við þvi að Syriza-flokkurinn, sem leiðir ríkisstjórn Grikklands, muni nota þessa niðurstöður, verði hún staðfest að lokinni talningu, til að taka nýju tilboði þríeykisins kröfuhafa landsins, sem samanstendur af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópska Seðlabankanum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Bankar í Grikklandi voru lokaðir alla síðustu viku og geta Grikkir ekki tekið hærri fjárhæð en 60 evrur, ríflega átta þúsund krónur, úr hraðbönkum á dag. Fjölmörgun hraðbönkum hefur auk þess verið lokað þar sem ekki var til reiðufé til að fylla á þá. Óvissa um framhaldið hefur leitt til óvenjulegra aðstæðna í landinu, svo ekki sé meira sagt, þar sem langar biðraðir myndast við hraðbanka og bæði launþegar og atvinnurekendur vita ekkert um framhald mála.
Sérfræðingar segja að bregðast verði strax við því ástandi sem ríkir í bankakerfi landsins og því er búist við að viðræður milli Grikkja og þríeykisins hefjist að nýju strax í kvöld í Brussel.