Þessi tilkynning hans hefur komið mörgum á óvart, en Löfven segist vilja veita eftirmanni sínum á leiðtogastóli Sósíaldemókrata, hver sem það nú verið, nægan tíma til undirbúnings og góðar aðstæður til að taka við keflinu.
Nýr formaður verður kjörinn á landsþingi flokksins sem á að fara fram dagana 3.-7. nóvember. Löfven hefur leitt flokkinn í næstum tíu ár og verið forsætisráðherra Svíþjóðar frá því árið 2014.
„Hér er ég með smá fréttir,“ sagði hann í ávarpinu, „í kosningabaráttunni á næsta ári mun einhver annar en ég mun leiða Sósíaldemókrata.“ „Allt tekur enda,“ sagði Löfven, sem er 64 ára gamall.
Hann sagði fréttamönnum eftir ávarpið að hann vildi ekki fara inn í kosningabaráttu með flokkinn á næsta ári þar sem fjölmiðlar væru uppteknir af því að krefja hann og aðra flokksmenn svara um hversu lengi hann ætlaði að vera flokksformaður. Betra væri að stíga til hliðar núna og veita framtíðarformanni bestu mögulegu aðstæður til þess að leiða flokkinn áfram.
Fjármálaráðherrann sögð „krónprinsessa“ flokksins
Í dag hafa sænskir stjórnmálaskýrendur velt því upp hver sé líklegastur til þess að taka við keflinu af Löfven og þar er einu nafni varpað oftar fram en öðrum.
Magdalena Andersson fjármálaráðherra í stjórn Löfvens er sögð líklegasti arftaki hans og jafnvel kölluð „krónprinsessa“ sænskra jafnaðarmanna. Hún hefur verið fjármálaráðherra allt frá árinu 2014 og var þar áður talsmaður Sósíaldemókrata í efnahagsmálum.
Ef svo færi að hún yrði kjörin formaður á landsþingi Sósíaldemókrata eru allar líkur á að hún yrði fyrsta konan til þess að gegna embætti forsætisráðherra í Svíþjóð, sem hefur ólíkt öllum hinum Norðurlöndunum aldrei valið sér konu til þess að leiða ríkisstjórn.
En hver eftirmaður Löfven verður ræðst ekki fyrr en í nóvember. Í kjölfarið þarf svo að gera og fá samþykkta tillögu um nýjan forsætisráðherra í sænska þinginu.
Sá eða sú mun svo leiða sænsku stjórnina fram að næstu kosningum, sem fara fram 11. september árið 2022.