Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagðist á þingi í morgun hafa tekið þátt í að leggja fram frumvarp ásamt öllum öðrum flokksformönnum á þingi um bann við nafnlausum áróðri með þeim fyrirvara að kannað yrði rækilega hvernig slíkt bann samræmdist tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.
Kjarninn fjallaði í morgun um frumvarpið og rifjaði upp ástæður þess að verið er að leggja það fram, en fyrir síðustu kosningar, bæði til Alþingis og reyndar borgarstjórnar Reykjavíkur líka, hefur verið töluvert um nafnlaus áróðursmyndbönd á netinu sem hafa sum hver fengið mikla dreifingu.
Verði frumvarpið að lögum eins og formennirnir hafa lagt það fram verður stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, óheimilt að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra.
Auk þess eiga allar auglýsingar og annað kostað efni, sem ætlað er að hafa áhrif á úrslit kosninga, að vera merkt auglýsanda eða ábyrgðarmanni frá þeim degi kjördagur hefur formlega verið auglýstur vegna kosninga til Alþingis, sveitastjórna eða til embættis forseta Íslands.
Þarf að gera kröfu til fólks um sjálfstæða hugsun
Helgi Hrafn sagði í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins í morgun að hann vildi að skoðað yrði af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hvort þetta frumvarp samræmdist þeim lýðræðislegu gildum sem tjáningarfrelsinu væri ætlað að næra.
Hann sagði einnig að það væri þó annað sem væri jafnvel enn mikilvægara en þetta frumvarp: „Hlutverk borgarans, lesandans, áheyrandans, á því að geta lesið, séð og heyrt heiminn sem við búum í án þess að heilaþvost af honum samstundis.“
„Almenningur ekki börn yfirvalda, þetta er fullorðið fólk upp til hópa og við eigum að gera þá kröfu til annars fullorðins fólks að það hafi sjálfstæða hugsun og geti tekið upplýstar ákvarðanir þótt það verði fyrir einhverri vitleysu á internetinu,“ sagði Helgi Hrafn og bætti við að því miður væri íslenskt samfélag ekki vant því að hugsa þannig um fólk.
„Heldur er meira og minna hugsað um almenning sem samansafn af börnum sem yfirvöld þurfi einhvernveginn að ala upp og ég vildi bara koma hér upp í ljósi umfjöllunar Kjarnans og framlagningar þessa frumvarps og minna á að almenningur er ekki samansafn af börnum, heldur fullorðnu fólki,“ sagði formaður Pírata.