Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og fulltrúi Vinstri grænna í kjörbréfanefnd segir að rétt sé að ógilda kosningarnar í Norðvesturkjördæmi og kjósa þar á ný. Í minnihlutaáliti hennar úr kjörbréfanefndinni kemur fram að ákvæði laga um innsigli kjörgagna og að enginn sé í einrúmi með kjörgögnum byggist á því að „hvað sem líður heiðarleika fólks“ þurfi framkvæmd kosninga og talningar að „vera þannig hagað að almenningur geti ótvírætt treyst því að tryggt sé að hin efnislega rétta niðurstaða, vilji kjósendanna, hafi verið leiddur í ljós.“
Svandís segir að það sé „undirstaða réttaröryggis í íslenskri stjórnsýslu að borgararnir geti borið traust til handhafa opinbers valds,“ og að það sé ekki nægjanlegt að stjórnvöld fari í reynd málefnalega að við úrlausn mála, ef það sé ekki sýnilegt öðrum.
Í ræðu sinni í þinginu í dag sagði Svandís að nú þyrfti Alþingi að vanda til verka, þar sem verkefni af þessu tagi hefði ekki áður komið fyrir þingið með sama hætti. Til afgreiðslu málsins yrði horft til langrar framtíðar.
Ekki unnt að útiloka neitt
Í áliti Svandísar segir að réttaröryggisreglum laga um kosningar til Alþingis, og undirliggjandi meginreglum, sem lúta að innsiglun atkvæða og því að enginn sé í einrúmi með óinnsigluðum atkvæðum, sé hvort tveggja „ætlað að tryggja að ekki sé unnt að hafa áhrif á niðurstöður kosninga í reynd“ en „ekki síður að ekki sé unnt að bera brigður á niðurstöðuna.“
„Vandamálið er hins vegar að ef þessar reglur eru brotnar með þeim hætti sem á við í þessu máli er nær ógerningur að fullyrða hvort í raun hafi verið átt við atkvæði. Er þá komin upp sú staða að ekki er heldur unnt að útiloka það. Þá vill svo til að niðurstaða fyrri talningar og þeirrar talningar, sem fram fór eftir að framanrakin ákvæði höfðu verið brotin við meðferð kjörgagna, var ekki sú sama og munaði nægjanlega miklu til að hreyfing yrði á þingsætum. Þessi aðstaða, óháð því hvort átt var við atkvæði eða ekki, er svo sannarlega til þess fallin að rjúfa traust,“ segir í áliti Svandísar.
„Ekki er unnt að útiloka með vissu að framangreindir annmarkar hafi haft áhrif og annmarkarnir feli í sér brot á þeim ákvæðum kosningalaga sem ætlað er að tryggja að unnt sé að ganga úr skugga um rétta talningu og að almenningur geti treyst því að svo hafi verið. Verður því, í ljósi meginreglu um að með kosningum skuli lýðræðislegur vilji kjósenda leiddur í ljós, að úrskurða kosninguna ógilda og boða til uppkosningar í Norðvesturkjördæmi,“ segir einnig í niðurstöðu Svandísar, sem telur sem áður segir að dómsmálaráðuneytið þurfi að kveðja til nýrra kosninga í Norðvesturkjördæmi svo fljótt sem auðið er.