Nýtt veiruafbrigði, meiri verðbólga og aukin skuldsetning hins opinbera mun leiða til þess að hægja mun á hagvexti á heimsvísu í ár. Afleiðingar þessara þátta verða sérstaklega slæmar fyrir þróunarríki, en búist er við því að tekjumunur á milli þeirra og iðnríkja muni aukast enn frekar á næstu árum. Þetta kemur fram í nýrri hagspá Alþjóðabankans, sem kom út fyrr í dag.
Hörð lending möguleg
Samkvæmt hagspánni er búist við að hagvöxtur á heimsvísu muni nema 4,1 prósent í ár og 3,2 prósent á næsta ári, samhliða því sem dregur úr vexti eftirspurnar og undið verður ofan af stuðningsaðgerðum ríkisstjórna víða um heim. Áður fyrr hafði bankinn spáð 5,5 prósenta hagvexti í ár.
Varað var við „harðri lendingu“ eftir efnahagsþrengingarnar sem hafa fylgt heimsfaraldrinum, þar sem nýtt Omíkron-afbrigði kórónuveirunnar myndi líklega hægja á efnahagsþróun til skamms tíma. Auk þess nefndi bankinn að minni hagvöxtur í Bandaríkjunum og Kína myndi hafa neikvæð áhrif á eftirspurn eftir útflutningsvörum þróunarríkja og að framboðstruflanir og verðbólga gætu reynst þrálát.
Ójöfnuður gæti aukist
Hægari hagvöxtur mun eiga sér stað samhliða frekari gliðnun í hagvexti á milli iðnríkja og þróunarríkja, segir í fréttatilkynningu frá Alþjóðabankanum. Því er spáð að hagkerfi iðnríkja muni vaxa nægilega til að ná sér að fullu efnahagslega á næsta ári, en að hagkerfi þróunarríkja verði enn 4 prósentum minni en þau hefðu verið ef faraldurinn hefði ekki skollið á.
Sömuleiðis nefnir bankinn að vaxandi verðbólga, sem bitnar verst á tekjulágum, muni hefta getu stjórnvalda til að bregðast við ástandinu. Samkvæmt honum hafa mörg þróunar- og nýmarkaðsríki þurft að draga úr opinberum efnahagsaðgerðum gegn áhrifum faraldursins löngu áður en efnahagslífið hefur náð sér á strik til að halda verðbólguþrýstingnum í lágmarki.