Alþjóðleg samtök blaðamanna, International Press Institute, fordæma Þóreyju Vilhjálmsdóttur, aðstoðarmann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, fyrir að krefjast fangelsisdóms yfir blaðamönnum DV, þeim Jóni Bjarka Magnússyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu blaðamannasamtakanna, sem birtist í gær.
Jón Bjarki og Jóhann Páll fullyrtu í frétt DV að Þórey væri starfsmaður B hjá innanríkisráðuneytinu, sem væri grunaður af lögregluyfirvöldum um að hafa lekið trúnaðarupplýsingum í lekamálinu svokallaða. DV dró fréttina samdægurs til baka og bað Þóreyju afsökunar á mistökunum.
Scott Griffen, sérstakur ráðgjafi samtakanna varðandi ritstjórnarlegt frelsi, segir í áðurnefndri frétt að samtökin séu slegin yfir kröfu Þóreyjar, sem sé allt of harkaleg miðað við tilefnið. "Að opinber starfsmaður sækist eftir fangelsisdóm, eða í raun refsingar, fyrir eitthvað sem virðist hafa verið heiðarleg mistök í tengslum við alvarlega rannsókn, gefur ekki til kynna að fjölmiðlar njóti virðingar sem varðhundar almennings."
Þá hvetur Griffen íslensk stjórnvöld til að endurskoða meiðyrðalöggjöfina á Íslandi, til að koma í veg fyrir misnotkun hennar og möguleg áhrif til þöggunar í fjölmiðlasamfélaginu. Við endurskoðun löggjafarinnar verði að huga að því hún verndi blaðamenn frá lögsóknum, svo lengi sem þeir hafi unnið í góðri trú og farið að siðareglum.